Njarðvíkingar sóttu sigur í Grindavík í kvöld í spennandi og nokkuð kaflaskiptum leik. Lokatölur: 91-94.

Það var fátt sem benti til þess að leikurinn yrði spennandi því heimamenn voru miklu betri framan af, og virtust hreinlega ætla að kafsigla gestina. Grindvíkingar náðu mest fimmtán stiga forskoti, 36-21, og léku á als oddi; gott tempó og flæði og flottar körfur. Þarna fékk maður á tilfinninguna að Njarðvíkingar væru bara búnir á því, en reyndin varð svo sannarlega önnur; þeir neituðu að gefast upp, fóru að spila af mun meiri hörku og fóru smám saman að saxa á forskot heimamanna og munaði sjö stigum í hálfleik, 49-42.

Baráttan var hörð í síðari hálfleik og ekkert gefið eftir. Njarðvíkingar komust yfir í lok þriðja leikhluta og fjórði leikhluti var mjög spennandi.

Það háði Grindvíkingum talsvert að nokkrir leikmenn voru komnir í villuvandræði í síðari hálfleik og það hægðist á leik þeirra, eins og gefur að skilja.

Lokakaflinn var mjög spennandi; heimamenn áttu síðustu sókn leiksins, þremur stigum undir, og freistuðu þess að knýja fram framlengingu. Lokasóknin var því miður fyrir Grindvíkinga alveg hræðileg og hreinlega steindauð; endaði á vonlausu skoti frá Degi Kár Jónssyni, og gestirnir fögnuðu flottum og gríðarlega mikilvægum sigri; þeir eru enn í fallhættu en eiga líka möguleika á að komast í úrslitakeppnina. Kannski er ballið loksins núna að byrja hjá grænklæddu ljónunum? Allavega var stemningin hjá þeim góð; leikmenn voru að berjast fyrir hvern annan og bekkurinn tók vel þátt í leiknum og hvatti sína menn áfram. Fín stemning.

Maciek Baginski var frábær í liði gestanna – besti maður vallarins; alltaf til í slaginn og alveg óhræddur. Fór fyrir sínum mönnum. Logi Gunnarsson átti flotta innkomu í síðari hálfleik og þeir Kyle Johnson og Mario Matasovic voru sterkir – Rodney Glasgow varð betri eftir því sem á leikinn leið.

Grindvíkingar hljóta að vera mjög svekktir eftir þetta tap; þeir höfðu leikinn í höndum sér í fyrri hálfleik og léku þá eins og þeir sem valdið hafa. En þeim tókst ekki að halda dampi og þessi flotti og skemmtilegi bolti sem þér léku lengstum í fyrri hálfleik sást lítið í þeim seinni. Dagur Kár var atkvæðamikill en vill örugglega gleyma síðustu sókn leiksins sem fyrst. Joonas Jarvelainen var traustur og Kazembe Abif var góður framan af – kominn í toppform og búinn að skafa vel af sér – en villuvandræði hrjáðu kappann.

Tölfræði leiks

Maciek eftir sigur í Grindavík “Erfitt tímabil hjá okkur en við erum búnir að ákveða að skilja það eftir og byrja bara núna nýtt”

Marshall Lance eftir leik í Grindavík “Þeir neituðu að gefast upp”

Umfjöllun, viðtöl / Svanur Snorrason