Tindastóll tók á móti Þór frá Þorlákshöfn í Dominos deild karla í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld og hafði eins stigs sigur í æsispennandi körfuboltaleik.

Gengi liðanna hefur verið ólíkt í vetur, Tindastóll hefur strögglað á meðan Þórsarar hafa verið eitt af bestu liðum deildarinnar. Stólar sóttu þó sigur í Þorlákshöfn í fyrri leik liðanna og voru ákveðnir í að veita gestunum harða keppni.

Leikurinn hófst fjörlega og Stólar sóttu að körfu gestanna og voru skrefi á undan en þristunum rigndi frá Þórsurum og þeir héldu í heimamenn og vel það. Þristur frá Axel kom heimamönnum í 5 stiga forystu og góðar körfur frá Viðari og Whitfield bættu í 7 stiga mun en þá náði Emil Karel ævintýralegu and 1 play, setti þrist og víti og munurinn kominn í 3 stig. Liðin skiptust svo á körfum og staðan 27-25 eftir fyrsta leikhluta. Þórsarar komu svo gríðarlega sterkir inn í annan leikhluta og náðu fljótlega 6 stiga forystu og Baldur tók leikhlé. Það dugði þó skammt því Þórsarar bættu bara í og komust í 11 stiga forystu og neyddu Baldur í annað leikhlé í stöðunni 39-50. Ragnar Örn bætti við 2 stigum áður en Jaka Brodnik náði að laga aðeins stöðu heimamanna með síðustu 5 stigum hálfleiksins.

Þriðji leikhluti hefur oft reynst erfiður hjá Tindastól, þó aðallega ef liðið er yfir í hálfleik. Þeir komu ákveðnir inn í seinni hálfleikinn og byrjuðu að naga niður forskot gestanna og komust yfir með frábærum þrist frá Nik Tomsick um miðjan þriðja leikhluta. Baráttan var gríðarleg hjá báðum liðum og Emil Karel kom sterkur inn hjá gestunum á þessum kafla. Styrmir Snær kláraði svo leikhlutann með 2 vítum og staðan jöfn fyrir lokaátökin 69-69

Fjórði leikhluti bauð upp á sömu baráttuna en nú var sá munur á að heimamenn máttu varla koma við gestina án þess að flautuð væri villa og þeir voru komnir með 5 liðsvillur eftir aðeins 3 og hálfa mínútu á móti aðeins einni hjá gestunum. Stólar náðu þó að halda haus þrátt fyrir þetta mótlæti og náðu 5 stiga forystu um miðjan leikhlutann með þrist frá Pétri. Styrmir Snær kom þó gestunum aftur inn í leikinn með frábærri rispu, setti 8 stig í röð og Baldur tók leikhlé þegar rúmar 2 mínútur voru eftir og staðan 88-87. Thomas kom gestunum yfir, Tomsick svaraði og Thomas svaraði til baka, 91-90 og aðeins hálf mínúta eftir. Þórsarar áttu villu til að gefa en það þýddi að Stólar áttu boltann nánast það sem eftir var leiksins. Jaka reyndi þrist þegar 4 sekúndur voru eftir, hitti ekki en Pétur Rúnar átti ævintýralegt frákast og Flenard Whitfield náði að hrifsa til sín boltann í klafsinu og Þórsarar brutu á honum þegar einungis 0.2 sekúndur lifðu leiksins. Flenard var ískaldur á línunni, setti bæði vítin og tryggði heimamönnum sigur í geggjuðum körfuboltaleik.

Í jöfnu liði heimamanna voru stóru strákarnir áberandi, Antanas Udras var stigahæstur með 19 stig Jaka Brodnik var með 18 stig og 8 fráköst og 23 í framlag. Hjá gestunum var Larry Thomas Stigahæstur með 22 stig en Styrmir var með 19 auk 7 frákasta og framlagshæstur með 27 punkta.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna