Gallalaus vörn Grindvíkinga

Grindvíkingar mættu í Mathöll Garðabæjar á kvöldmatartíma í kvöld. Grindvíkingar léku án Marshall Nelson sem er fingubrotinn og því ljóst í upphafi að mikið myndi mæða á Degi Kár sem var eini leikstjórnandi liðsins. Varnarleikur Grindvíkingar var frábær í fyrsta leikhluta. Þeir lokuðu öllum leiðum að körfunni og trufluðu sendingar Stjörnumana að auki. Náðu Grindvíkingar frumkvæðinu í leiknum og óbilgjarn varnarleikur þeirra sló Garðbæinga út af laginu sem kostaði Ægi Steinarsson tæknivillu þegar 02:12 voru eftir af fyrsta leikhluta sem fór 16-22 fyrir gestina og þeir aðeins með eina villu í leikhlutanum og hún kom þegar 28 sekúndur voru eftir af leikhlutanum.

Hvar er Mirza?

Í öðrum leikhluta hóf Mirza Sarajlija að raða niður körfum og lagði hann grundvöllinn að áhlaupi Stjörnunnar sem jafnaði leikinn fljótlega. Um leið og einhver Stjörnumegin fór að setja niður skot opnaðist leikurinn og varð skemmtilegri. Myndaðist þrýstingur á vörn Grindvíkinga með hverju hlaupi Mirza í gegnum skrín og færslur í sóknarleik Stjörnunnar. Þá var gaman að fylgjast með baráttu Dags Kára og Ægis sem gáfu hvergi eftir og náðu í raun báðir að slá hinn út af laginu sóknarmegin. Að sama skapi var spilaður fullorðinsbolti með þumalputtum undir körfunni með þeim afleiðingum að svo virtist um tíma að því nær sem menn komust hringnum því minni líkur á boltinn dytti ofaní. Grindavíkurmegin skiptist stigaskorið jafnt og varnarvinna A. Kazembe Abif skyggði á þátttökuleysi hans sóknarmegin. Kazembe skilaði þó sóknarframlagi í lok leikhlutans og tryggði gestunum þriggja stiga forskot í hálfleik 39-42. Báðír þjálfarar nýttu bekkinn vel og ofkeyrðu ekki lykilmenn í fyrri hálfleik.

Harður slagur (Surf and Turf)

Mirza hóf seinni hálfleikinn í byrjunarliði Stjörnunar enda var hann á þeim tímapunkti eini Garðbæingurinn sem veruleg ógn stóð af sóknarlega. Hins vegar var áfram lítið grænmeti í boði í þriðja leikhluta og menn lögðu allt sitt kjöt í veisluna. Stjarnan náði frumkvæðinu með skotum frá Mirza og frákastabaráttunni en meyrt var forskotið. Margsinnis rúllaði boltinn rangsælis upp úr hringnum beggja megin eða menn voru gerðir afturreka með gegnumbrotin og skot blokkuð.  Menn fengu að takast á og þegar menn fóru auðveldlega í gólfið fengu þeir engin verðlaun fyrir. Þeir Dagur Kár og Ægir nældu sér báðir í fjórðu villuna í leikhlutanum en Kiddi Páls og Dúi Jóns gerðu vel í þeirra stað.

Aldrei hægt að afskrifa lið sem hefur Óla Óla innanborðs

Fjórði leikhluti var jafn og spennandi og sigurinn gat fallið beggja megin. Stjörnumenn héldu frumkvæðinu en Grindvíkingar með fyrirliða sinn Ólaf Ólafsson í broddi fylkingar var alltaf líklegir til endurkomu og yfirtöku. Skoraði Óli nokkrar körfur á viljanum einum saman og hélt lífi í vonum Grindvíkinga þangað til að Tómas Þórður setti stóran þrist þegar 01:58 voru eftir og kom heimamönnum í 75-66. Eftir það var Múhammed langt frá fjallinu en Grindvíkingar sýndu óhemju styrk og náðu að minnka muninn í 76-73 þegar 26 sekúndur voru eftir en nær komust þeir ekki og kærkominn sigur í höfn fyrir Arnar og leikmenn hans.

Mikilvægur sigur þótt hvorugt liðið hafi hreyfst í töflunni

Liðin komu inn í leikinn í þriðja og sjöunda sæti og þótt engin formleg breyting hafi orðið á stöðu þeirra þá var mikilvægt fyrir Stjörnumenn að ná sigri. Með honum er orðið ólíklegt að þriðja sætið verði af þeim haft. Heimaleikjarétturinn er því þeirra og Mathöll Garðabæjar er annað besta heimavígi deildarinnar, á eftir sláturhúsinu í Keflavík (Blue höllinni) sem hefur verið óvinnandi vígi. Stjörnumenn þurfa þó að finna fleiri fjalir í ofninn sóknarmegin. Þeir hittu betur úr þriggja stiga skotum (39%) en tveggja stiga (35%). Með sigri hefði verið ólíklegt að Grindvíkingar gætu sogast inn í botnbaráttu og hljóta menn og konur af grindvízkum uppruna að hafa andað léttar í kvöld þegar ljóst að bæði ÍR og Njarðvík töpuðu sínum leikjum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Albert Kristbjörnsson

Myndir / Bára Dröfn