Keflavík lagði ÍR í kvöld í 18. umferð Dominos deildar karla, 109-116. Með sigrinum eru Keflvíkingar hænuskrefi frá deildarmeistaratitlinum, en þeir eru 8 stigum á undan bæði Þór og Stjörnunni í 2.-3. sætinu. Fari svo að Keflavík tapi öllum þeim leikjum sem eftir eru og Stjarnan vinnur alla sína, þá geta þeir tapað honum á innbyrðisviðureign gegn Stjörnunni. Gagnvart Þór eru þeir hinsvegar með innbyrðisviðureignina. ÍR-ingar eru í 9. sætinu með 14 stig, tveimur stigum fyrir neðan sæti í úrslitakeppninni.

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð kaflaskiptur í fyrri hálfleiknum. Keflavík leiddi eftir fyrsta leikhluta, 19-28, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var aðeins tveggja stiga munur, 55-57.

Keflvíkingar ná svo aftur að vera skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þann þriðja með 7 stigum og fara því með 9 stiga forystu í lokaleikhlutann, 75-84. Í honum gerðu heimamenn svo vel í að vinna niður forskot gestanna og á ævintýralegan hátt tryggja sér framlengingu, 100-100.

Í framlengingunni sýndu Keflvíkingar svo mátt sinn og megin. Lokuðu leiknum nokkuð örugglega, 109-116.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík átti frákastabaráttu leiksins skuldlausa. Tóku 47 fráköst á móti aðeins 31 sem ÍR tók í leiknum.

Kjarninn

Keflvíkingar hafa óumdeilanlega verið besta lið vetrarins og það var kannski ekki við öðru að búast í kvöld en að þeir færu heim með sigurinn. Gera vel í að klára leikinn nokkuð örugglega í framlengingunni. ÍR-ingar þurfa hinsvegar eitthvað að fara að hugsa sinn gang. Hafa nú tapað fjórum leikjum í röð og eru, þrátt fyrir frekar álitlegan hóp leikmanna, við það að missa af sæti í úrslitakeppninni. Mögulega hægt að hrósa þeim fyrir að hafa farið með þennan leik í framlengingu, þó hann hafi endað með tapi eins og allir leikir þeirra síðan þeir unnu Hött síðast 11. mars.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Keflavík í leiknum var Deane Williams með 34 stig og 16 fráköst. Fyrir heimamenn í ÍR var það Zvonko Buljan sem dró vagninn með 34 stigum 6 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Hvað svo?

ÍR-ingar heimsækja Grindavík næst komandi fimmtudag 29. apríl. Degi seinna mætir Keflavík liði KR í Vesturbænum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Þorsteinn Eyþórsson)