Haukar lögðu Breiðablik í dag í 17. umferð Dominos deildar kvenna, 74-68. Eftir leikinn eru Haukar í 1.-3. sæti deildarinnar með 26 stig líkt og Valur og Keflavík en Valur á leik til góða á bæði Hauka og Keflavík. Breiðablik er í 10. sætinu með 10 stig.

Gangur leiks

Það vorur gestirnir úr Breiðablik sem voru skrefinu á undan í upphafi leiks. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með 5 stigum, 13-18. Undir lok fyrri hálfleiksins er leikurinn svo jafn og spennandi, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn 2 stig Breiðablik í vil, 35-37.

Leikurinn er svo áfram í járnum í upphafi seinni hálfleiksins. Haukar komnar með eins stigs forystu eftir þrjá leikhluta, 49-48. Í lokaleikhlutanum gerðu heimakonur svo vel í að halda forystunni og sigla að lokum nokkuð sterkum 6 stiga sigri í höfn, 74-68.

Atkvæðamestar

Eva Margrét Kristjánsdóttir var atkvæðamest í liði Hauka í dag með 14 stig, 7 fráköst og 4 varin skot. Fyrir Breiðablik var það Isabella Ósk Sigurðardóttir með 14 stig og 13 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst komandi miðvikudag 28. apríl. Blikar fá Keflavík í heimsókn á meðan að Haukar heimsækja nýliða Fjölnis í Dalhús.

Tölfræði leiks