Boltinn fór loks að rúlla á ný eftir tæplega mánaðar stopp vegna heimsfaraldursins. Í Dominos deildini tóku Borgnesingar í Skallagrím á móti toppliði deildarinnar fyrir kvöldið, Keflavík.

Gangur leiksins:

Gestirnir í Keflavík voru öflugri í upphafi leiks, komust snemma í 11-4 og virtust vera ákveðnari eftir þessa pásu. Í öðrum leikhluta voru liðin svo nánast jöfn á öllum tölum og staðan í hálfleik var 35-30 fyrir heimakonum.

Óhætt er að segja að allur seinni hálfleikur hafi verið í eigu Skallagríms. Liðið náði strax tíu stiga forystu í þriðja leikhluta og gjörsamlega völtuðu svo yfir Keflavík í loka fjórðungnum. Mesti munurinn var 24 stig (74-50). Lokastaðan í leiknum var 76-64 og niðurstaðan sannfærandi sigur Skallagríms.

Atkvæðamestar:

Embla Kristínardóttir áttu virkilega góðan leik gegn sínu fyrrum félagi. Hún endaði með 13 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Nikita Telesford var einnig öflug með 17 stig og 9 fráköst.

Daniella Morillo var að vanda öflug í liði Keflavíkur með tröllatvennu 20 stig, 20 fráköst og 7 stoðsendingar. Anna Ingunn átti einnig virkilega góðan skotleik og endaði með 27 stig, þar af sex þriggja stiga körfur.

Hvað næst?

Skallagrímur er í fimmta sæti áfram og eru að róa lífróður í baráttu sinni fyrir úrslitakeppnissæti. Staðan er ekki mjög fögur fyrir liðið en sigur dagsins sýnir að liðið mun ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Næsti leikur liðsins er gegn KR næstkomandi laugardag.

Keflavík missti af toppsætinu til Val eftir leiki kvöldsins. Liðið er þó áfram í öðru sæti en sigurhrina Hauka gerir það að verkum að liðið þarf að horfa niður fyrir sig í deildinni. Næsti leikur Keflavíkur er heimaleikur gegn Snæfell næsta laugardag.

Tölfræði leiksins