Landsliðsmaðurinn Sigtryggur Arnar Björnsson hefur samkvæmt heimildum Körfunnar samið við Leyma Basquet Coruna í Leb Oro deildinni á Spáni, en hann kemur til félagsins frá Real Canoe í sömu deild.

Leyma eru töluvert sterkara lið en Canoe, en eftir að deildinni var skipt upp í tvo hluta nú í mars var liðið í þeim hluta sem keppir að því að komast upp um deild á meðan að Canoe voru í neðri hlutanum.

Arnar hefur leikið vel það sem af er tímabili með Real Canoe í Leb Oro deildinni. Á 25 mínútum spiluðum að meðaltali í leik hefur hann skilað 7 stigum, 2 fráköstum og 3 stoðsendingum.

Samkvæmt töflunni eru Leyma í 5. sæti deildarinnar með 8 sigra og 5 töp það sem af er tímabili, en næsti leikur þeirra er gegn Granada þann 18. apríl.