Boltinn fór loks að rúlla á ný eftir tæplega mánaðar stopp vegna heimsfaraldursins. Í Dominos deildini tóku Blikar á móti nýliðum Fjölnis.

Gangur leiksins:

Til að gera langa sögu stutta má segja að Fjölnir hafi sótt sigurinn í fyrri hálfleik. Liðið náði snemma forystu og náðu mest 15 stiga mun í öðrum leikhluta. Staðan í hálfleik var 29-41 fyrir Fjölni.

Breiðablik náði ágætum áhlaupum í seinni hálfleik en náðu aldrei að minnka muninn meira en fimm stig. Fjölniskonur gerðu vel að verjast öllum áhlaupum og lönduðu að lokum 69-79 sigri.

Atkvæðamestar:

Ariel Hearn átti enn eina mögnuðu frammistöðu vetrarins. Hún endaði með 25 stig, 18 fráköst og 6 stoðsendingar. Hún var valin Lykilmaður umferðarinnar fyrir frammistöðuna í leiknum. Lina Pikecute var að vanda öflug með 21 stig og 13 fráköst.

Hjá Breiðablik var Ísabella Ósk Sigurðardóttir mjög öflug með 6 stig, 14 fráköst og 7 stolna bolta. Jessica Kay var einnig sterk með 19 stig og 6 stoðsendingar.

Hvað næst?

Fjölniskonur eru enn í fjórða sæti og í góðum málum í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Næsti leikur liðsins er gegn toppliði Vals næsta laugardag.

Breiðablik situr ansi fast í sjötta sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn heitasta liði landsins um þessar mundir, Haukum.

Tölfræði leiksins