Svíinn Alexander Lindqvist mun vera á leiðinni aftur til Íslands samkvæmt heimildum Körfunnar og mun hann því vera með liðinu á lokasprettinum í Dominos deild karla. Sex umferðir eru eftir af deildarkeppninni, en eftir þá tekur við úrslitakeppni.

Stjarnan er sem stendur í 2.-3. sæti deildarinnar með 22 stig líkt og Þór, en næsti leikur þeirra er komandi föstudag gegn toppliði Keflavíkur. Ekki er ljóst á þessari stundu nákvæmlega hvenær Alexander verður kominn aftur í leikmannahóp Stjörnunnar. Síðast lék hann fyrir félagið þann 7. mars, en þá þurfti hann frá að hverfa vegna persónulegra ástæðna. Í 11 leikjum með Stjörnunni í vetur hafði hann skilað 16 stigum og 7 fráköstum að meðaltali í leik.