Nick Tomsick kom fyrst í Dominos deildina fyrir tímabilið 2018-19. Þá lék hann með Þórsurum í Þorlákshöfn, þaðan lá leiðin í Garðabæinn fyrir síðasta tímabil, þar sem hann varð meðal annars bikarmeistari með Stjörnunni. Fyrir þetta tímabil samdi hann svo við Tindastól.

Í heildina hefur Nick leikið 77 leiki á Íslandi með þessum þremur liðum og í þeim gert að meðaltali 21 stig, tekið 4 fráköst og gefið 6 stoðsendingar. Í þessum 77 leikjum hefur hann tekið 719 þriggja stiga skot og skilað tæplega 40% þeirra rétta leið.

Karfan lagði fyrir hann 20 spurningar.

Full nafn: Nicholas Tomsick

Gælunafn: Croatian sensation

Aldur: 30

Fæðingarstaður: Denver, Colorado

Líkt og í Skagafirðinum, er mikið af hestum í Colorado

Hvað værir þú að gera ef þú værir ekki í körfubolta? Þegar ég hætti að spila sé ég fyrir mér að fara út í þjálfun eða einkaþjálfun. Þá hef ég einnig verið í fjárfestingum í fasteignum heima, en ég hef hug á að einbeita mér enn betur að því.

Uppáhalds íslenski skyndibitinn? Veit ekki hvort það telur, en ég segi Vængjavagninn. Hef ekki enn náð að komast á staðinn þeirra, en Shouse gerði ótrúlega vængi eftir að við unnum bikarinn í fyrra, held ég velji minn mann.

Hvaða lið styður þú? NBA, Golden State, NFL, Denver Broncos, NCAA, Michigan State

Ekki ólíkt Nick, var Jordan aldrei betri en í lok leikja

Besti körfuboltamaður allra tíma? Besti leikmaður allra tíma er MJ. Hann kláraði dæmið alltaf þegar á þurfti.

Hvers saknar þú að heiman? Augljóst svar væri veðrið. Ef þú fylgir mér á samfélagsmiðlum veist þú að ég er áhugamaður um mótorhjól. Sakna þess gífurlega, sem og frjálslegra ferða með fjölskyldunni í spilavítið.

Uppáhalds tónlistarmaður? Future, Moneybaggyo, Drake, Gunna, Lil baby, svo einhverjir séu nefndir.

Uppáhalds bíómynd? White men can´t jump

White Men Can’t Jump (1992)

Besti leikmaður sem þú hefur spilað á móti? Hef spilað á móti mörgum ótrúlegum leikmönnum á sumaræfingum og slíku, en ef við erum bara að taka leikmenn sem ég hef spilað leiki gegn sem atvinnumaður, þá segi ég Scotty Hopson og Ryan Boatright.

Þú velur tvo liðsfélaga til að fara í stríð með, hverjir eru það? Hér gef ég smá ást á Viðar og Helga. Þeir fá ekki alltaf mesta hrósið, en þeir gera svo mikið sem sést ekki á tölfræðiskýrslunni sem gerir okkur að góðu liði.

Hvað er eitthvað sem ekki margir vita um þig? Það sem sem þú sérð er það sem þú færð hjá mér. Ég lifi, anda og sef með leiknum. Á í raun og veru ekkert mörg áhugamál sem snúast ekki um það að verða betri. Má vera að einhverjum finnist það skrýtið, en það er ég. Svo að áhugaverð staðreynd kannski, ég hef spilað sem atvinnumaður í átta löndum, Þýskalandi, Króatíu, Austurríki, Slóveníu, Svíþjóð, Finnlandi, Bretlandi og Íslandi.

Nick var stigahæsti leikmaður Stjörnunnar í úrslitaleiknum

Stærsti sigur körfuboltaferilsins? Verð að segja það að hafa unnið bikarinn á síðasta tímabili. Það var minn fyrsti bikar sem atvinnumaður. Sorglegt að hafa ekki fengið að sjá hvernig síðasta tímabil hefði endað.

Þú færð að velja einn leikmann úr Dominos til að koma í liðið ykkar, hver er það? Deane Williams, hann gerir svo mikið sem hefur áhrif á leikinn, hefði heldur ekkert á móti því að kasta nokkrum lobbum á hann.

Deane Williams leikmaður Keflavíkur

Uppáhalds staður á Íslandi? Keiluhöllin Egilshöll, uppáhaldsveitingastaðir Mathúsið eða RVK Meat.

Hvað kom þér mest á óvart við íslenskan körfubolta? Mikið af þeim sem ég hef talað við hafa sömu skoðunina á körfuboltanum sem er spilaður hér. Hraðinn er mjög mikill og leikmennirnir leggja sig alla í sölurnar. Gæðin eru án alls vafa meiri hérna heldur en fólk heldur og eru alltaf að verða meiri. Fyrir mér er stíllinn skemmtilegur, góð blanda agans og strúktúrsins sem þú sérð í austur Evrópu og upp og niður boltans sem þú sérð í Bandaríkjunum.

Hvar ert þú eftir 5 ár? Set sjálfum mér engin mörk. Sé mig alveg vera ennþá að spila, hvort sem það er á Íslandi eða í útlöndum.

Hverju sérðu mest eftir í lífinu? Ég sé ekki eftir neinu. Ég trúi því að það sem ég hef farið í gegnum hafi gert mig að þeim manni sem ég er í dag. Það hefur einnig leyft mér að upplifa frábæra hluti.