Valur og Tindastóll mættust í 15. Umferð Dominos deildar karla á Hlíðarenda í kvöld. Leikið var til styrktar Píeta samtakanna og til að vekja athygli á því mikilvæga forvarnarstarfi sem samtökin vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða.

Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum og óhætt að segja að búist hafi verið við meiru af báðum liðum fyrir tímabilið en að þau væru í 7.-9. sæti deildarinnar nú þegar að mótið er rúmlega hálfnað. Valsarar höfðu fyrir leikinn unnið tvo leiki í röð, í fyrsta sinn á tímabilinu, en það hefur liði Tindastóls enn ekki tekist að gera.

Mikið jafnræði var með liðunum í byrjun leiks og munurinn mest 4 stig í fyrsta leikhlutanum. Um miðjan annan leikhluta kom flott rispa hjá heimamönnum með Jón Arnór fremstan í flokki. Valsarar höfðu þá misst bæði Hjálmar og Kristófer af velli vegna meiðsla. Það virtist hins vegar ekki draga kraftinn úr Valsmönnum en Jón Arnór drógu vagninn fyrir heimamenn sem fóru 11 stigum yfir inn í hálfleik þrátt fyrir fína takta hjá bæði Tomsick og Whitfield.

Það voru strax góðar fréttir þegar þriðji leikhluti fór af stað en bæði Hjálmar og Kristófer byrjuðu seinni hálfleik fyrir Val og gátu beitt sér að fullu. Það gekk lítið hjá gestunum að saxa á forskot heimamanna og fór munurinn mest upp í 16 stig.

Fyrir fjórða leikhlutann var 14 stiga munur á liðunum en gestirnir opnuðu leikhlutann á þriggja stiga körfu og leikurinn enn galopinn. Tindastóll náði muninum niður í 4 stig þegar rúmlega mínúta var eftir af leiknum eftir frábærar baráttu mínútur hjá Pétri Rúnari, Tomsick og Whitfield. Nær komust gestirnir ekki en þeir brutu klaufalega á sínum fyrrum félaga Sinisa Bilic eftir hálfgert neyðarskot Valsmanna. Heimamenn gerðu endanlega útaf við leikinn af vítalínunni. Lokatölur á Hlíðarenda í kvöld voru 90-79 og þriðji sigurinn í röð staðreynd hjá vel stemmdu liði Vals.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)