Valur lagði ÍR í kvöld í lokaleik 13. umferðar Dominos deildar karla, 101-90. Valur er eftir leikinn í 7.-9. sæti deildarinnar með 10 stig líkt og Njarðvík og Tindastóll á meðan að ÍR er í 5.-6. sætinu með 12 stig líkt og Grindavík.

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum, þar sem að liðin skiptust á að hafa forystuna í nokkur skipti. ÍR þó einu stigi yfir eftir fyrsta leikhluta, 26-27. Undir lok fyrri hálfleiksins ná gestirnir úr Breiðholtinu svo að slíta sig aðeins frá, eru 5 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-52.

Heimamenn gera svo vel í upphafi seinni hálfleiksins að snúa taflinu sér í vil. Vinna þriðja leikhlutann með 9 stigum og eru því 4 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 76-72. Í fjórða leikhlutanum voru heimamenn í Val svo áfram sterkari, með frábærum brak mínútum frá Jóni Arnóri Stefánssyni og Jordan Roland sigla þeir að lokum nokkuð öruggum 11 stiga sigri í höfn, 101-90.

Tölfræðin lýgur ekki

Breiddin hjá Val virtist vera nokkuð meiri í leik kvöldsins. Þrátt fyrir að vera ekki að spila á jafn mörgum leikmönnum, þá fékk Valur meira frá bekk sínum í leiknum en ÍR. Setja 26 stig af bekknum á móti aðeins 12 hjá ÍR.

Atkvæðamestir

Kristófer Acox átti góðan leik fyrir Val í kvöld. Skilaði 18 stigum, 17 fráköstum og 3 stolnum boltum á aðeins rúmri 31 mínútu spilaðri. Fyrir ÍR var það Everage Lee Richardson sem dróg vagninn með 26 stigum, 8 fráköstum og 12 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 11. mars. ÍR tekur á móti Hetti heima á meðan að Valur heimsækir granna sína í KR.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)