Valur lagði Keflavík í kvöld í uppgjöri toppliða Dominos deildar kvenna, 80-67. Eftir leikinn er Valur í efsta sæti deildarinnar með 22 stig á meðan að Keflavík er í öðru sætinu með 20 stig. Keflavík á þó enn einn leik til góða á Val.

Gangur leiks

Heimakonur í Val byrjuðu leik kvöldsins betur, leiddu eftir fyrsta leikhluta með 7 stigum, 17-10. Undir lokk fyrri hálfleiksins gera þær svo vel í að halda í sinn hlut, eru þægilegum 12 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-28.

Keflvíkingar byrja seinni hálfleikinn á snörpu, en kraftmiklu, 10-0 áhlaupi. Leikurinn er í nokkru jafnvægi eftir það í þriðja leikhlutanum. Heimakonur í Val enn 3 stigum á undan fyrir fjórða leikhlutann, 56-53. Um miðjan lokaleikhlutann ná Valskonur svo aftur að slíta sig frá gestunum og sigra að lokum með 13 stigum, 80-67.

Kjarninn

Fyrir leik kvöldsins voru liðin jöfn að stigum í 1.-2. sæti deildarinnar. Því lítið sem kom óvart við það að leikurinn hafi verið jafn og spennandi. Að sama skapi kannski lítið óvænt að reynsla Vals hafi vegið þungt á lokamínútunum er þær kláruðu leikinn.

Tvö stór próf sem lið Keflavíkur hefur fallið á síðustu vikum, bæði toppslagur kvöldsins gegn Val og þá töpuðu þær fyrir Haukum á dögunum. Valur aftur á móti er á blússandi siglingu, lang heitasta lið deildarinnar, með sjö sigurleiki í röð.

Tölfræðin lýgur ekki

Keflavík tapaði frákastabaráttunni nokkuð örugglega í leik kvöldsins. Tóku 40 fráköst í leiknum á móti 57 hjá heimakonum í Val.

Atkvæðamestar

Fyrir Val var Kiana Johnson atkvæðamest með þrefalda tvennu, 26 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Hjá Keflavík var það Daniela Morillo sem dróg vagninn með 27 stigum, 16 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Keflavík tekur næst á móti Snæfell heima 14. mars á meðan að Valur á ekki leik fyrr en 17. mars gegn Breiðablik í Smáranum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Eygló Ottesen)