Tillaga UMFK um það að kynjablanda í keppni upp í 9. flokk var rétt í þessu til umræðu á ársþingi KKÍ. Kosið var um tvær breytingartillögur og voru þær báðar felldar ásamt upprunalegri tillögu UMFK.

Þingtillögur ársþings KKÍ

Margir báðu um orðið. Nokkrir fundarmenn gerðu athugasemd við það að tillagan væri óbreytt frá því á síðasta þingi. Spurt var hvers vegna ekki hafi verið unnið með tillöguna frekar milli þinga. Aðrir voru sammála tillögunni og bentu meðal annars á að þetta hafi tíðkast víða í gengum árin og væri forsenda fyrir því að ná í lið hjá fámennari liðum. Það kom fram að þegar það hefur verið gert hefur það verið samkvæmt samkomulagi milli þjálfara og KKÍ hefur ekki skipt sér af því.

Einnig var bent á það að kynin eru ekki bara tvö og að það þyrfti að skoða þessar reglur með tilliti til þess.

Þingfulltrúar voru ekki sammála um það við hvaða aldur ætti að miða, sumir töldu að 9. flokkur væri of hár aldur, 11 og 12 ára var nefnt sem viðmið. Mikið var rætt um tilgang og forsendur breytinga og hvort gefa ætti frelsi til að leikmenn fái að keppa bæði með drengjum og stúlkum eða setja skorður á að velja þyrfti annað hvort.

Þingforseti minnti á að það væri hægt að leggja fram breytingartillögur. Breytingartillaga frá laganefnd leit dagsins ljós, en henni var hafnað:

,,Heimilt er að keppa með kynjablandað eða skipað leikmönnum af öðru kyni frá minibolta 10 ára upp í 9. flokk. Leikmenn þessir geta ekki keppt bæði í sama aldursflokki drengja og stúlkna”

í stað upprunarlegrar tillögu UMFK ,,Mótanefnd KKÍ getur leyft keppni liðs í Íslandsmóti sem er annaðhvort kynjablandað eða skipað leikmönnum af gagnstæðu kyni frá minnibolta 10 ára upp í 9. flokk. Slíkt leyfi verður aðeins veitt ef félag sem óskar eftir að senda slíkt lið til keppni hefur sent inn rökstutt erindi til mótanefndar þar sem félagið hefur rökstutt með fullnægjandi hætti að mati mótanefndar að ástæða sé til að veita slíkt leyfi að teknu tilliti til meðal annars getu og/eða framþróunar liðs og/eða leikmanna sem sótt er um fyrir. Ef sótt er um slíkt leyfi fyrir lið geta leikmenn þess almennt ekki keppt bæði í flokki karla og kvenna en þó er það mögulegt ef um er að ræða tilfærslu á einstökum leikmönnum á milli liða. Blönduð lið eða lið af öðru kyni geta keppt á öllum mótum í tilteknum flokki nema í úrslitamótum þar sem endanlega er keppt um Íslandsmeistaratitil. Hafi slíkt lið áunnið sér sæti á
slíku móti skal færa upp það lið sem næst kemur að stigum fyrir úrslitamót. Leyfi mótanefndar samkvæmt framangreindu tekur ekki til keppni í Bikarkeppnum KKÍ.”

Breiðablik kom einnig með breytingartillögu um það að miðað væri við 7. flokk en ekki 9. flokk. Sú tillaga var felld.