Þór Akureyri lagði KR í kvöld í DHL Höllinni í Dominos deild karla, 86-90. Eftir leikinn eru KR í 3.-4. sæti deildarinnar með 20 stig líkt og Þór Þorlákshöfn á meðan að Þór eru í 5.-6. sætinu með 16 stig líkt og Grindavík.

Gangur leiks

Heimamenn hófu leik kvöldsins á 16-0 áhlaupi, þar sem að Þórsarar náðu ekki að setja stig fyrr en fyrsti leikhlutinn var hálfnaður. Ná gestirnir aðeins að vakna til lífsins í hlutanum, en heimamenn halda þó í forystu sína, eru 14 yfir eftir fyrsta leikhlutann, 27-13. Undir lok fyrri hálfleiksins gera Þórsarar svo vel í að vinna muninn niður og þegar um 2 mínútur eru eftir af hálfleiknum ná þeir sinni fyrstu forystu í leiknum með þrist frá Ragnari Viðarssyni, 40-42. Staðan 48-44 þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins láta gestirnir svo kné fylgja kviði. Vinna þriðja leikhlutann með 10 stigum og eru því 6 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 63-69. Undir lokin er leikurinn svo æsispennandi, þar sem að Þórsarar ná að vera skrefinu á undan. Mikilvægar körfur frá Guy Landry og Dedrick Basile á lokasekúndunum innsigluðu svo 86-90 sigur Þórs.

Kjarninn

Þórveldið er á ógnvænlegri sigurgöngu. Fimm í röð núna og tveir síðustu komið í fjarveru tveggja lykilmanna. Held það sé ljóst að Þór verði alls ekki í neinni fallbaráttu þetta tímabilið. Eins og staðan er núna, þá er þetta ekki spurning um hvort þeir verða með í úrslitakeppninni, heldur á móti hverjum þeir lenda í fyrstu umferð.

Alveg án þess að segja að það sé nein skömm af því að tapa fyrir þessu magnaða Þórsliði, þá hlýtur tapið að svíða sárt fyrir KR, sem á síðustu vikum hafa verið að festa sig í sessi sem eitt af betri liðum deildarinnar. Annar heimaleikurinn sem þeir tapa í röð og eru nú í fjórða sæti deildarinnar.

Sögulegt

Sigur Þórs var aðeins þeirra annar í sögunni í DHL Höllinni. Sá fyrri kom fyrir um 20 árum síðan, en þann 15. október árið 2000 lögðu þeir KR með minnsta mun mögulegum, 78-79.

Munar um minna

Þórsarar léku í kvöld án tveggja lykilleikmanna sinna í Ingva Guðmundssyni og Ivan Alcolado, sem báðir voru frá. Munar um minna fyrir liðið, en Ivan hefur verið einn besti leikmaður deildarinnar þetta tímabilið og þá var Ingvi einnig að koma sterkur inn í liðið eftir að hann kom til þeirra frá Haukum á miðju tímabili.

Atkvæðamestir

Dedrick Deon Baile var frábær í liði Þórs í kvöld, skilaði 27 stigum, 8 fráköstum og 11 stoðsendingum. Fyrir heimamenn var það Matthías Orri Sigurðarson sem dró vagninn með 16 stigum, 5 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst 25. mars. KR heimsækja Þór í Þorlákshöfn á meðan að Þór Akureyri mæta Tindastól í Síkinu.

Tölfræði leiks