Haukar lögðu Snæfell í dag í fyrsta leik 15. umferðar Dominos deildar kvenna, 98-68. Eftir leikinn eru Haukar með 22 stig á meðan að Snæfell er með 4 stig.

Staðan í deildinni

Gangur leiks

Leikurinn var nokkuð jafn í upphafi. Eftir fyrsta leikhluta leiddu heimakonur í Haukum með minnsta mun mögulegum, 20-19. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þær þó að slíta sig aðeins frá gestunum og eru 10 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 49-39.

Í upphafi seinni hálfleiksins má segja að Haukar hafi svo nánast gert út um leikinn. Vinna þriðja leikhlutann með 14 stigum og eru því komnar með þægilega 24 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 74-50. Í þeim fjórða gerðu þær svo nóg til að sigla að lokum öruggum 30 stiga sigur í höfn, 98-68

Kjarninn

Öruggur sigur Hauka sem hafa nú unnið síðustu fjóra leiki sína og eru heitasta lið deildarinnar. Eru eftir leikinn jafnar Val og Keflavík að stigum, en þau lið eiga þó leiki til góða. Nokkuð ljóst að Haukar ætla sér ekki að gefa neitt eftir í baráttunni við þau.

Snæfell á hinum enda töflunnar með aðeins tvo sigra í fimmtán leikjum. Þetta var kannski ekki leikur sem nokkur bjóst við að þær myndu taka (nema þær vonandi) Eru jafnar KR að stigum í 7.-8. sætinu. Ætli þær að halda sér uppi í deildinni er nokkuð ljóst að þær verða að fara að vinna leiki.

Atkvæðamestar

Þóra Kristín Jónsdóttir var frábær í liði Hauka í dag. Skilaði 25 stigum, 8 fráköstum og 11 stoðsendingum. Fyrir gestina var það Haiden Denise Palmer sem dró vagninn með 20 stigum, 15 fráköstum og 8 stoðsendingum.

Hvað svo?

Liðin eiga leik næst aftur gegn hvoru öðru í deildinni komandi miðvikudag 24. mars, þá í Stykkishólmi

Tölfræði leiks