ÍR-ingar tóku á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn í Hellinum í kvöld. Breiðhyltingar hafa verið upp og niður í vetur og ekki útséð með að liðið nái sæti í úrslitakeppninni. Þeir sitja nú í 8.-9. sæti deildarinnar ásamt Stólunum. Þórsarar hafa hins vegar heillað alla með frábærum körfubolta í vetur og gátu með sigri tyllt sér í annað sæti deildarinnar. Gefum Kúlunni orðið. 

Spádómskúlan: Kúlan er óvenju öflug að þessu sinni og í henni birtist hreinlega leikurinn allur í heild sinni! Reyndar á 50 földum hraða en ljóst er að lokatölur verða 103-101 heimamönnum í vil í hröðum og spennandi leik! 

Byrjunarlið:

ÍR: Evan, Danero, Pryor, Sigvaldi, Zvonko

ÞÓR Þ.: Drungilas, Dabbi, Larry, Lawson, Raggi Braga

Gangur leiksins

Þórsarar voru sjálfum sér líkir í byrjun leiks og röðuðu þristum, gjarnan eftir stórkostlega boltahreyfingu, og leiddu með nokkrum stigum í byrjun. Evan ákvað hins vegar að vera með að þessu sinni og var eins og eins manns her og skoraði alls staðar af vellinum. Jafnt var 17-17 þegar 3 mínútur lifðu af fyrsta leikhluta en þá tóku gestirnir æði mikið, ekki síst Emil Karel, og staðan skyndilega 22-31. Everage lagaði stöðuna og bombaði þristi fyrir leikhlutaskiptin, staðan 25-31. Athygli vakti að Þórsarar voru 7-9 í þristum og forskotið kannski ekki mikið miðað við það.

Raggi kannast við körfurnar í Hellinum og opnaði annan leikhluta með sínum þriðja þristi. Enn syrti í álinn fyrir heimamenn, Danero fékk sína þriðju villu snemma í leikhlutanum og gestirnir 33-40 yfir. Everage smellti þá hríðskotabyssunni á öxlina og óð fram á vígvöllinn alls óhræddur og var stórkostlegur! Þó svo að ÍR-sóknin sé ansi mikið einn á alla skiptir það kannski engu þegar stigin skila sér upp á töflu og þegar góðar 3 mínútur voru til hálfleiks var staðan 49-45 heimamönnum í vil og Lalli tók leikhlé. Dabbi kóngur smellti í einn af sínum þremur þristum undir lokin og munurinn aðeins 3 stig í hálfleik, 55-52.

Evan byrjaði vel í seinni hálfleik og setti 5 snögg stig á töfluna. Raggi svaraði með enn einum þristi gestanna og Drungilas hóf innreið sína á vígvöllinn og lagði 5 stig í valinn líkt og Evan. Um miðjan leikhlutann var staðan 68-65, allt í járnum og frábær stemmning í Hellinum. Þá var komið að þeim allra hermannlegasta í orrustunni, Zvonko sjálfum Buljan, að láta að sér kveða. Gaurinn varð allt í einu algerlega óstöðvandi og undirritaður fullyrðir að Skarphéðinn heitinn Njálsson hefði verið maður að hans skapi ef tíminn hefði leitt þá saman! Pryor fóðraði hann á handsprengjum og staðan var orðin 83-67 þegar aðeins tvær mínútur voru eftir af þriðja. Heimamenn fóru hins vegar illa að ráði sínu í framhaldinu, gestirnir skoruðu 6 stig á þeim tíma gegn engu og staðan 83-73 eftir þrjá. Tvö þeirra voru einhver undarlegustu stig sem sést hafa í körfubolta en þá gleymdu ÍR-ingar hreinlega að mæta til að stíga út í frákast eftir víti Halldórs Garðars! Lesendur munu fá að sjá þetta þrisvar annað kvöld í Körfuboltakvöldi.

Gestirnir áttu fyrstu körfu fjórða leikhluta og maður hafði á tilfinningunni að Þórsarar myndu í það minnsta hleypa stríðinu upp í návígi í framhaldinu. Það varð líka raunin, þegar 4 mínútur voru eftir var jafnt 92-92! Erlendir leikmenn gestanna höfðu haft frekar hægt um sig fram til þessa en drógu fram stórskotabyssurnar einmitt þegar mest var þörfin. Hjá ÍR-ingum var Zvonko áfram í berserkjaham en hann og liðsfélagar hans virtust vera orðnir skotfæralitlir undir lokin og gestirnir komu sér yfir 92-96. ÍR-ingar töpuðu boltanum ítrekað á þessum kafla orrustunnar og ætli það megi ekki segja að Drungilas hafi tryggt gestunum fullnaðarsigur með kjarnorkusóknarfrákasti og troðslu þegar 80 sekúndur voru eftir og setti stöðuna í 95-102. Zvonko er alltaf í sviðsljósinu og veifaði hvíta fánanum skömmu síðar með fautalegri árás á Drungilas. Lokatölur urðu 98-105 í algerlega frábærum körfuboltaleik!

Menn leiksins

Eins og oft áður fengu Þórsarar framlag úr öllum áttum. Það má í raun segja það sama um ÍR-liðið. Það voru bara meira og minna allir góðir í þessum frábæra leik og undirritaður hvetur alla til að skoða ,,stattið“. Einnig væri einfaldlega ljótt af Stöð 2 sport að sýna ekki leikinn í heild sinni á einhvern hátt fyrir þá sem ekki komust í húsið.

Kjarninn

Þórsarar voru án Styrmis í þessum leik þar sem hann sneri sig á ökkla í síðasta leik. Liðið kom samt til baka eftir að hafa lent 16 stigum undir seint í þriðja (aftur!) og unnu leikinn. Það hlýtur að segja eitthvað jákvætt um liðið og Lalli var líka mjög ánægður með þennan sigur. Geta Þórsarar frá Þorlákshöfn orðið Íslandsmeistarar? Við Raggi Braga erum a.m.k. sammála um það.

ÍR-liðið er alveg óskiljanlegt lið. Þeir voru góðir í þessum leik, vörnin var fín stóran hluta leiksins (þrátt fyrir að fá á sig 105 stig) og sóknarleikurinn sömuleiðis. Spilamennska liðsins hefur verið á uppleið en stigasöfnunin hefur ekki alveg fylgt þeirri línu eftir undanfarið. Komist ÍR-ingar ekki í úrslitakeppnina yrði það í raun alveg ótrúlegt miðað við mannskap…en þetta er jú liðsíþrótt. Ef einhver getur fundið svör við þeim spurningum sem svara þarf er það Borche og enn eru nokkuð í úrslitakeppnina svo við skulum bara slaka á í bili…

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Myndir: Bára Dröfn