Tindastóll tók á móti Hetti í Dominos deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Leikurinn var gríðarlega mikilvægur báðum liðum sem berjast í neðri hluta deildarinnar.

Heimamenn byrjuðu betur og komust í 17-11 þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður. Þó voru brestir í leik þeirra og Siggi Þorsteins átti allt of greiða leið að körfu heimamanna í byrjun. Gestirnir sóttu í sig veðrið og áður en varði hafði Króksarinn Hreinn Gunnar Birkisson jafnað með góðum þrist eftir 3 stig frá Sigga. Siggi bætti svo þristi við og gestirnir leiddu að loknum fyrsta leikhluta 21-22. Tindastóll var ekki að ná jafnvægi í sóknarleik sínum og gestirnir sigu framúr og komust í 24-31 þegar Baldur tók leikhlé. Strax eftir leikhléið setti Mallory þrist í andlit Stóla og 10 stiga munur staðreynd 24-34. Heimamenn gáfust þó aldrei upp og náðu upp mikilli baráttu. Viðar náði frábæru and1 play eftir að hafa stolið boltanum og heimamenn virtust mun baráttuglaðari eftir það. Þegar um mínúta var til hálfleiks setti Tomsik þrist og fékk tæknivillu í kjölfarið sem gestirnir nýttu sér til að komast 5 stigum yfir en Udras og Flenard sáu til þess að aðeins munaði 1 stigi í hálfleik 44-45.

Heimamenn í Tindastól hafa oft átt í erfiðleikum í þriðja leikhluta leikja, einkum á heimavelli. Svo fór þó ekki í kvöld, gríðarleg barátta var í báðum liðum en Tindastóll hélt forystu allan leikhlutann þó munurinn yrði aldrei mikill. Hreinn Gunnar var enn að setja þrista fyrir gestina og Mallory var líka erfiður heimamönnum. Staðan 69-66 fyrir lokaleikhlutann og Bryan Alberts hafði haldið gestunum nærri með skotsýningu. Tindastóll var alltaf skrefi á undan í lokaleikhlutanum og lönduðu að lokum gríðarlega mikilvægum sigri 90-82 og voru öruggir á vítalínunni síðustu mínúturnar.

Hjá Tindastól var Tomsik atkvæðamestur með 25 stig og gaf þar að auki 13 stoðsendingar, langbesti leikur hans í vetur. Antanas Udras var drjúgur með 18 stig og 8 fráköst en hefði getað nýtt dauðafærin betur. Jaka Brodnik setti tröllatvennu með 16 stig og 14 fráköst en Flenard Whitfield hafði hægara um sig eftir höfuðhögg en skilaði samt 13 stigum og 12 fráköstum. Holningin á liði Tindastóls virðist allt önnur eftir að Flenard kom í stað Glovers og vonandi fyrir þá fara þeir að sýna það inni á vellinum. Michael Mallory var bestur gestanna með 23 stig og 7 stoðsendingar og Siggi Þorsteins átti góðan leik með 13 stig og 9 fráköst. Þá er rétt að geta framlags Hreins Gunnars sem endaði með 14 stig og sýndi gríðarlega baráttu gegn sínum gömlu félögum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna