Nágrannaslagur var á boðstólum í Domino’s deild karla í kvöld þegar Stjörnumenn tóku á móti grönnum sínum úr Hafnarfirði, Haukum, í Mathús Garðabæjar höllinni. Liðin eru bæði í baráttu, hvort á sínum enda töflunnar, þar sem Haukar sitja á botni deildarinnar en Stjörnumenn eru í baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppni deildarinnar í öðru til fjórða sæti.

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu betur og áttu Stjörnumenn í stökustu vandræðum að komast framhjá Haukavörninni fyrstu mínútur leiksins. Haukar komust átta stigum yfir 10-18, eftir um sex mínútna leik, þegar Arnar Guðjónsson tók leikhlé. Arnar hélt þrumuræðu yfir sínum mönnum, sem varð til þess að Garðbæingar lokuðu leikhlutanum með 9-2 áhlaupi, og staðan að loknum fyrsta fjórðungi því 19-20, gestunum í vil.

Í öðrum leikhluta voru það Stjörnumenn sem voru ívið sterkari, drifnir áfram af Mirza Sarajlija, sem átti sannkallaðan stórleik. Mirza setti niður hvert skotið á fætur öðru og sá til þess að heimamenn færu með þriggja stiga forystu inn í hálfleik, 43-40.

Eftir hnífjafnan þriðja leikhluta sigu Stjörnumenn fram úr á lokamínútunum og unnu að lokum tólf stiga sigur, 88-76.

Hver stóð upp úr?

Mirza Sarajlija bar af í liði heimamanna í kvöld. Mirza lauk leik með 31 stig, átta þrista úr fjórtán tilraunum og fjögur fráköst. AJ Brodeur skilaði líka fínum tölum með 19 stig og 10 fráköst og Ægir Þór Steinarsson bætti við 12 stigum, sex stoðsendingum og átta fráköstum.

Framhaldið

Stjörnumenn spila næst við Keflavík á útivelli föstudaginn 26. mars, en degi áður taka Haukar á móti ÍR í Ólafssal.