Þór lagði ÍR í kvöld í Dominos deild karla, 98-105. Eftir leikinn er Þór í 2.-3. sæti deildarinnar með 22 stig líkt og Stjarnan á meðan að ÍR er í 8.-9. sætinu með 14 stig líkt og Tindastóll.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Ragnar Bragason, leikmann Þórs, eftir leik í Hellinum.

Ragnar hefur spilað afar vel með Þórsliðinu í vetur og á því var engin undantekning gegn uppeldisfélaginu í kvöld:

Ragnar…þetta var geggjaður sigur hjá ykkur! Þú hlýtur að vera bara brjálæðislega ánægður með þetta?

Ég er mjög ánægður með þetta! Sérstaklega miðað við hversu lélegir við vorum í vörn í fyrri hálfleik og við töpuðum líka ég veit ekki hversu mörgum boltum…

…jájá…12 voru þeir í fyrri hálfleik minnir mig…

…og voru komnir upp í 18 eða svo í lok þriðja þannig að…EN við enduðum þetta sem betur fer á réttu nótunum og förum héðan úr Breiðholtinu með helvíti góðan sigur!

Það má kannski segja einmitt að einn af lyklunum að sigrinum var að vörnin small í gang í fjórða leikhluta…alla veganna stóran hluta þess fjórðungs…

Já, þeir áttu í það minnsta ekki jafn auðvelt með að komast upp að körfunni í fjórða leikhluta, vorum frekar að láta þá taka 3ja stiga skot með mann í andlitinu. Það var svo sem leikplanið frá byrjun en við náðum að fylgja því eftir í 4. leikhluta sem dugði í dag.

Akkúrat. Ég hélt að Zvonko væri að fara að klára ykkur þarna í þriðja og í byrjun fjórða ef ég man rétt…þið virtust ekkert ráða við hann þarna um tíma…hvað var eiginlega í gangi þar?

Ég veit það ekki…við vorum með Adomas á honum og við treystum honum fullkomlega til að stoppa hann en bara hrós á Zvonko, hann var bara að gera mjög vel og var helvíti góður í dag…

Jájá…hann var vel heitur þarna…Ef ég man rétt þá voruð þið einhverjum 17 stigum undir á móti Stjörnunni þegar eitthvað var eftir af þriðja…svo núna voruð þið 16 undir þegar 2 mínútur voru eftir af þriðja…þetta er tæplega planað?!

Nei alls ekki, þetta er eitthvað sem við þurfum að laga þó svo að okkur hafi tekist að snúa þessu við núna í síðustu tveimur leikjum. Þetta er ekki staða sem við viljum vera í því við náum ekki að grafa okkur upp úr svona holu í hverjum einasta leik…

…neinei…það er ekki hægt að treysta á það…!

Við þurfum að breyta einhverju allavega til að lenda ekki í svona holum, vera frekar liðið sem leiðir og klárar þannig allan leikinn.

Nákvæmlega. Aðeins um þig sjálfan…þú spilaðir með ÍR ekki satt?

Jú, þetta er heima…

Já..og þú ert ÍR-ingur að upplagi?

Jájá, og það er alltaf gaman að koma heim…

Einmitt, þú kannast við körfurnar hérna! Þú hefur verið að spila frábærlega í vetur…og hefur e.t.v sjálfur aðeins verið að bíða eftir að ná að láta ljós þitt skína kannski aðeins meira en síðasta og þarsíðasta tímabil eða hvað…?

Já klárlega, ég var ekki sáttur, sérstaklega með síðasta tímabil…tímabilið þar á undan var svona allt í lagi…en þetta gerist bara, maður leggur í vinnuna og þetta er greinilega að skila sér núna…

Neinei, maður veit ekki alltaf hvenær uppskeran kemur!

Nei…! Það þarf greinlega bara smá þolinmæði í mínu tilfelli…

Aðeins um stemmninguna í liðinu, það hlýtur að vera frábær stemmning í liðinu?

Jájá, það er alltaf góð stemmning, þó svo að við töpuðum þarna 2 leikjum í röð um daginn. Við bara trúum það mikið á okkur sjálfa og það er gaman hjá okkur, þannig að við hlökkum alltaf til að fara í næsta leik og trúum að við getum unnið hann.

Einmitt. Eitt að lokum, geta Þórsarar frá Þorlákshöfn orðið Íslandsmeistarar?

Af hverju ekki?!

Sagði Ragnar Bragason, og undirritaður tekur undir svarið við lokaspurningunni, af hverju ættu þeir ekki að geta það?

Viðtal / Kári Viðarsson