Þórsarar sem gerðu góða ferð í Garðabæinn síðastliðið föstudagskvöld
þegar þeir lögðu Stjörnuna að velli mættu fullir sjálfstrausts í
Ólafssalinn í kvöld og unnu sannfærandi sigur gegn Haukum 79:100.
Þórsarar léku í kvöld án Ingva Þórs sem hafði farið á kostum með Þór í
fyrstu þremur leikjunum en Ingvi fékk þungt höfuðhögg í leiknum gegn
Stjörnunni og var því ákveðið að gefa honum frí og tíma til að jafna sig
fullkomlega áður en hann hefur leik á ný.

Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar og en leiddu heimamenn með fimm
stigum 16:11 um miðjan leikhlutann en þá tóku Þórsarar við sér og komust
yfir og leiddu með fimm stigum þegar annar leikhlutinn hófst 25:30.
Þarna virtust Þórsarar vera búnir að finna taktinn og þéttu vörnina til
muna.


Í öðrum leikhluta skelltu Þórsarar í lás og hreinlega lokuðu á
heimamenn sem áttu engin svör við varnarleik Þórs. Varnarleikurinn
skilaði því að Haukar náðu aðeins að skora sjö stig í fjórðungnum en
þótt Þórsarar hafi ekki átt stórleik í sókninni lögðu þeir þarna
grunninn að sigrinum en þeir unnu leikhlutann 7:18 og höfðu sextán stiga
forskot í hálfleik 32:48.

Í hálfleik var ljóst að á brattann yrði að sækja fyrir heimamenn sem
virtust vera lánlausir í öllum sínum aðgerðum, og þar á bæ virtust menn
ekki hafa trú á að þeir gætu veitt Þór teljandi keppni. Annað var uppi á
tengingunum hjá Þór, þar virtust menn vera fullir sjálfstrausts og þeir 
höfðu óbilandi trú á verkefnið viljinn var þeirra.

Þriðji leikhlutinn var sá jafnasti í leiknum en Þór vann þó leikhlutann
með einu stigi 25:26 og höfðu því 17 stiga forskot þegar fjórði og
síðast leikhlutinn hófst 57:74.

Úrslit leiksins voru í raun ráðinn þegar lokaspretturinn hófst og þótt
Þór hafi aðeins unnið leikhlutann með fjórum stigum voru yfirburðir Þórs
miklir og um tíma var forskotið orðið 26 stig og menn farnir að slaka á.

Eins og áður hefur  komið fram má segja að sterkur varnarleikur Þórs
hafi lagt grunninn að sigrinum og þá sérstaklega í öðrum leikhluta þegar
heimamenn skoruðu aðeins sjö stig. Það er ekki vænlegt til árangurs.

Bestir í liði Hauka voru þeir Hansel Atencia og Jalen Patrik en allir
erlendu leikmenn Þórs áttu góðan leik og skiluðu sínu fremstur var Srdan
með 22 stig, Andrius og Ivan 21 stig hvor og Dedrick 19.

Framlag Þórs: Srdan Stojanovic 22/3/6, Andrius 21/6/3, Ivan 21/11/2,
Dedrick 19/6/15, Guy Landry 14/10/3 og Ragnar Ágústsson 3/2/0. Þá
spiluðu þeir Smári Jónsson og Hlynur Freyr en þeim tókst ekki að skora.

Framlag Hauka: Bablo Cesar 19/3/5,  Hansel Atencia 17/1/2, Jalen
Patrick 16/3/3, Brian Edward 12/7/0, Breki Gylfason 5/2/0, Ágúst Goði
3/0/0, Hilmar Pétursson 3/3/1, Yngvi Freyr 2/2/0 og Emil Barja 2/2/0. Þá
tók Ragnar Nat 3 fráköst, Austin Bracey 2 fráköst.

Tölfræði leiks

Með sigrinum í kvöld lyfti Þór sér upp í sjöunda sæti deildarinnar með
12 stig en Haukar sitja sem fyrr á botni deildarinnar með 6 stig.

Staðan í deildinni

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh