ÍR-ingar fengu heimsókn frá Egilsstöðum í kvöld í 14. umferð deildarinnar. Viðar Örn hefur verð með hressasta móti undanfarnar vikur enda heil 8 stig komin í netið og stefnan sett á sæti í úrslitakeppninni. Borche hefur halað inn 12 stigum en hann vill vafalaust fjölga þeim umtalsvert í næstu leikjum með ásættanlegri vörn og betri liðsbrag. En er undirrituðum óhætt að taka viðtal við Viðar eftir leik…?

Spádómskúlan: ,,ALLS EKKI, komdu ekki nálægt manninum“ æpir kúlan að mér. ,,Mallory er ekki með og ÍR-sigur verður öruggur, 104-82.“

Byrjunarlið:

ÍR: Everage, Sæsi, Pryor, Sigvaldi, Zvonko

Höttur: Dino, Sigmar, Siggi, Alberts, Ramos

Gangur leiksins

Liðin voru lengi að finna netið í byrjun og staðan 4-0 eftir góðar þrjár mínútur. Siggi hafði á þessum tíma nælt sér í tvær villur sem er grafalvarlegt mál. Önnur villan hefði átt að vera sóknarvilla á Buljan (númer 53 eða svo á tímabilinu) en kvótinn virtist bara uppurinn í bili! Heimamenn leiddu með nokkrum stigum út leikhlutann án þess að vera að spila eitthvað sérstaklega vel. Karlovic setti flautuþrist í lokin og útlitið ekki svo dökkt fyrir gestina, staðan 18-16.

Gúzzi kom inn fyrir ÍR-inga í öðrum leikhluta og nú átti að nýta þessar tvær villur sem Siggi var kominn með, ef svo má segja. Það gekk fínt og Gúzzi setti 4 stig í röð á póstinum. Everage fylgdi eftir með dæmigert Everage-gegnumbrot og setti stöðuna í 28-20. Heimamenn nýttu sér einnig fjarveru Mallory og pressuðu gestina allan völlinn sem skilaði stolnum boltum og ódýrum körfum en einnig gleypti pressan ansi margar sekúndur af skotklukkunni. Staðan var 40-33 í hálfleik og máttu gestirnir þakka fyrir að heimamenn voru ekkert að eiga neinn stórleik svo vægt sé til orða tekið.

Það var allt við það sama fyrstu mínútur þriðja leikhluta. Hattarmenn að tapa boltum illa og Danero setti sína menn 50-35 yfir með þristi – örvæntingarfnykur farinn að berast frá gestunum og Viðar tók leikhlé. Hattarmenn reyndu að láta ÍR-inga bragða á eigin meðulum og tóku upp á því að spila svæðisvörn og jafnvel pressa í einhverri mynd. Gestunum tókst að halda Breiðhyltingum í augsýn en ekki nema rétt svo, staðan var 64-53 eftir þrjá. Þarna var Höttur búinn að tapa 14 boltum en heimamenn að vísu 11 boltum á móti.

Alberts var heitur í byrjun fjórða fyrir Hött og minnkaði muninn í 68-61 þegar 8 mínútur voru eftir. Það þarf kannski ekki að orðlengja það mjög mikið að nær komust gestirnir ekki. Borche hafði greinilega kokkað upp alls kyns trix og kúnstir gegn svæðisvörn Hattar og um miðjan leikhlutann var staðan 77-66 og úrslitin nánast ráðin svona miðað við gang leiksins. Til að ergja Viðar endanlega meiddist Dino skömmu síðar og heimamenn kláruðu leikinn örugglega í framhaldinu. Lokatölur 89-69 í bara mjög vondum körfuboltaleik.

Tölfræðimolar

Hattarmenn töpuðu 16 boltum í leiknum sem er alltof mikið, jafnvel þó það vanti besta kallinn í liðið. ÍR-ingar tóku líka 14 sóknarfráköst sem er ansi þungur hnífur. Úrslitin réðust þó ekki endanlega fyrr en seint í leiknum, m.a. vegna þess að heimamenn voru lítið skárri eða með 15 tapaða bolta! Það er bókstaflega alveg út í hött….

Menn leiksins

Everage setti 23 stig og gaf 8 stoðsendingar en gestirnir réðu illa við hann. Zvonko átti sinn besta leik fyrir ÍR, setti 16 stig, tók 13 fráköst og gaf 6 stoðsendingar en hefur samt aldrei verið eins lítið áberandi í leik á Íslandi! Þetta er bara þannig gaur einhvern veginn…

Alberts var skástur gestanna með 21 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Dino greyið gleymir þessum leik vonandi strax og ökklinn er kominn í lag, hann var 0-11 í skotum utan af velli en gaf þó 9 stoðsendingar og tók 5 fráköst.

Kjarninn

Hattarmenn geta tekið það úr þessum leik að þeir gáfust ekki upp. Annað ekki. Mallory var vissulega ekki með en þetta er úrvalsdeildin…

ÍR-ingar gerðu nóg til að vinna leikinn og Borche beitti öllum brögðunum í bókinni og nýtti sér veikleika andstæðinganna, eðlilega. Borche mun hins vegar seint lesa eitthvað mikið út úr þessum leik…bara 2 stig í hús og áfram gakk.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Viðtöl / Helgi Hrafn