Nokkur orð um tillögu UMFK um breytingar á kynjaskiptingu

Um helgina lauk fimmtugasta og fjórða Körfuknattleiksþingi KKÍ. Tvær tillögur voru mikið ræddar á þinginu. Annarsvegar tillaga fjögurra liða á höfuðborgarsvæðinu um fjölda erlenda ríkisborgara og hinsvegar tillaga Ungmennafélags Kjalarness um breytingar á kynjaskiptingu yngri flokka. Báðar tillögurnar höfðu talsverðan hljómgrunn á þinginu þótt hvorug hefði náð fram að ganga. Kannski fjalla ég um þá fyrrnefndu síðar, en hér á eftir langar mig að fara yfir ástæður þess að tillaga UMSK var felld, eins og málið blasti við mér sem þingfulltrúa. Sem þingfulltrúi tel ég mér einnig skylt að greina frá ákveðnum mistökum sem ég held að orðið hafi við afgreiðslu málsins á þinginu. Þau mistök þurfa ekki að vera endanleg.

Tillaga UMFK

Margir urðu fyrir vonbrigðum með afgreiðslu þingsins á tillögu UMFK (sjá þingskjal nr. 3) Ljóst er að íþróttahreyfingin þarf að taka íhaldssama kynjaskiptingu mótahalds og æfinga til skoðunar. Hefðbundin kynjatvíhyggja á t.d. ekki lengur við í því samfélagi sem við búum í og íþróttahreyfingin verður að fylgja með. Þetta litla mál á KKÍ þingi teygir sig líka inn í stærri umræðu sem snýr að jafnrétti kynjanna almennt í íþróttum. Þótt ýmislegt hafi áunnist í þeim efnum undanfarið er engu að síður víða pottur brotinn. Ég hef reyndar ekki trú á því að þessi tillaga skipti sköpum hvað það varðar, en hver veit, kannski veltir lítil þúfa þungu hlassi.

Að mínu mati var gott hve mikla umræðu tillagan fékk á þinginu. Umræðurnar leiddu í ljós að það er talsvert fylgi við það að þróa íþróttastarfið í átt að kynjablöndun.

Hvað kom í veg fyrir samþykkt?

Þegar ég las umrædda tillögu í þinggögnum varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum. Tillagan kom algjörlega óbreytt frá síðasta þingi árið 2019. Það þurfti því varla að koma á óvart að nákvæmlega sömu álitamálin og vandræði við framkvæmd komu upp aftur. Þrjú álitamál voru einkum til trafala:

  1. Hlutverk mótanefndar. Í tillögunni er gert ráð fyrir að hægt sé að sækja um undanþágur til mótanefndar um að blönduð lið eða lið af öðru kyni taki þátt í mótum. Umfjöllun um slíkar undanþágur samrýmist ekki hlutverki mótanefndar samvkæmt núgildandi reglugerð um nefndina. Þetta atriði tillögunnar hefði því verið óframkvæmanlegt.
  2. Hagsmunir fámennra liða. Við fyrstu sýn gæti tillagan nýst vel fyrir fámenn félög sem þurfa nú þegar oft að blanda kynjum til að tefla fram liðum í ákveðnum aldurshópum. Þegar nánar var að gáð kom þó í ljós að tillagan myndi einnig skapa vandamál fyrir þessi lið.
  3. Aldursmörk tillögunnar. Tillagan gerði ráð fyrir að ná upp í 9. flokk (9. bekkur). Það þótti mörgum of stórt fyrsta skref. Breytingartillaga Breiðabliks lækkaði aldurinn niður í 12 ára og féll sú breytingartillaga naumt og eftir hefðu staðið hin tvö atriðin hér að ofan.

Æskilegt hefði verið að flutningsmenn tillögunnar hefðu nýtt þessi tvö ár á milli þinga til að sníða þessa vankanta af svo tillagan væri framkvæmanleg. Einnig hefði verið æskilegt að taka tillit til umræðunnar sem fram fór á síðasta þingi. Þá var tillögunni reyndar ekki fylgt eftir af flutningsmönnum sem eðilega hafði sín áhrif. Þá hefði svo sannarlega verið til bóta ef greinargerð með rökum hefði fylgt tillögunni svo þingfulltrúar gætu betur áttað sig á markmiðum og tilgangi hennar.

Mistök í afgreiðslu þingsins og áskorun til stjórnar KKÍ

Að mínu mati urðu ákveðin mistök í afgreiðslu þingsins á þessu máli. Þau fólust í því að ekki var lögð fram tillaga þess efnis að fela stjórn sambandsins að útfæra tillöguna, með hliðsjón af sjónarmiðum sem fram komu á þinginu, svo hún væri framkvæmanleg. Útfærsluna mætti svo leggja fyrir næsta ársþing eða formannafund. Mögulega hafði rafrænt form þingsins áhrif á að þessi mistök urðu, því engin eiginleg nenfdarstörf fóru fram og því ekki nægjanlegt ráðrúm til að finna bestu farveginn fyrir málið. Sem þingfulltrúi harma ég að hafa ekki lagt fram slíka tillögu. Um leið skora ég á stjórn KKÍ að gera þetta engu að síður að eigin frumvæði.

Tillagan eins og hún var framsett var gölluð en umræðurnar voru góðar. Þær leiddu í ljós að körfuknattleikshreyfingin þarf vinna að lausnum hvað varðar kynjablöndun og jafnrétti. Það mun án vafa gerast á næstu árum en til að slíkt lukkist vel þarf að vinna málið áfram með skýr markmið og útfærslu sem er framkvæmanleg. Þá er mikilvægt að útfærslan hafi jákvæð áhrif fyrir iðkendur og félög og að hún vinni gegn brottfalli, sérstaklega brottfalli stúlkna. Besti vettvangurinn fyrir slíkt hlýtur að vera innan sambandsins í víðtækari vinnu en unt er að inna af hendi á einum laugardagseftirmiðdegi í mars 2021. Ýmislegt gagnlegt og gott hefur verið rætt og ritað undanfarið um þessi mál og það má sannarlega nýta þá umræðu. Ég bendi t.d. á grein Bryndísar Gunnlaugsdóttur hér á Körfunni í því sambandi og umræður um hana á Twitter.

Íþróttahreyfingin, þ.m.t. körfuknattleikshreyfingin, þarf að mæta ólíkum einstaklingum og skapa aðstæður sem taka vel á móti ólíkum hópum og stuðla að jöfnum tækifæri fyrir öll kyn.

Ingi Björn Guðnason,

Ritari Körfuknattleiksdeildar Vestra