Tindastóll vann góðan útisigur á Njarðvíkingum í kvöld, í nokkuð sveiflukenndum leik. Lokatölur 74-77.

Njarðvíkingar voru miklu betri í fyrsta leikhluta og þeir leiddu með tíu stigum eftir að honum lauk, 20-10. Það var eins og gestirnir væru ekki alveg mættir til leiks fyrr en í öðrum leikhluta, og þá fór vélin að hitna. Tindastóll sneri leiknum sér í vil og liðið gerði 30 stig í öðrum leikhluta gegn 14 stigum heimamanna, og leiddi því í hálfleik með 6 stiga mun, 34-40.
Í þriðja leikhlutanum hélst munurinn svipaður, gestirnir áfram með undirtökin.

Í lokaleikhlutanum setti Nikolas Tomsick örbylgjuofninn í gang og raðaði niður stigunum eins og enginn væri morgundagurinn, og hann virtist nánast einn og óstuddur ætla að klára leikinn fyrir Tindastól. Munurinn varð mestur 15 stig, en þá hófu Njarðvíkingar að klóra sig aftur inn í leikinn með baráttu og dugnaði; minnkuðu muninn í eitt stig, 74-75, þegar fjórar sekúndur voru eftir. Tomsick kláraði dæmið á vítalínunni, þegar 2.9 sekúndur voru eftir og heimamenn þurftu að taka skot frá eigin vallarhelmingi sem ekki var nálægt því að fara ofan í.

Antonio Hester var besti maður heimamanna – rosalega sterkur undir körfunni. Kyle Johnson áttu fínan leik, en aðrir náðu ekki að sýna sitt besta þegar á heildina er litið. Njarðvíkingar mega eiga það að þeir gáfust ekki upp þótt staðan væri orðin slæm og lítið eftir; þeir komu með gott áhlaup en aðeins of seint. 

Staða liðsins er ekki góð – og ef Njarðvíkingar hrökkva ekki fljótlega í gang gæti sú allt að því fáránlega staða komið upp að gamla græna stórveldið myndi falla úr deildinni. En það er enn möguleiki fyrir liðið að komast í úrslitakeppnina sem segir sitt um hvað deildin þetta tímabilið er jöfn og sterk. Eins og liðið hefur verið að spila undanfarið er fall líklegra en úrslitakeppni.

Hjá Tindastól var áðurnefndur Nikolas Tomsick bestur, og þegar hann verður heitur er varla nokkur sjéns að stoppa hann. Flenard Whitfield lítur vel út og virkar í góðu formi og hann á eftir að nýtast liðinu vel það sem eftir er af þessu tímabili.

Tölfræði leiksins