Keflavík lagði Skallagrím í dag í 15. umferð Dominos deildar kvenna, 74-51. Eftir leikinn er Keflavík í 1.-2. sæti deildarinnar með 24 stig líkt og Valur á meðan að Skallagrímur er í fimmta sætinu með 12 stig.

Staðan í deildinni

Sigur í dag var mikilvægur fyrir bæði lið. Keflavík er í harðri baráttu við Val um efsta sæti deildarinnar, þar sem að Haukar eru svo aðeins einum sigurleik fyrir neðan.

Skallagrímur að sama skapi er að berjast um síðasta sæti undanúrslitanna, en tapið í dag var þeirra þriðja í röð. Fjölnir, sem er í fjórða sætinu sex stigum á undan þeim og með leik til góða, fjarlægjast þær með hverri umferðinni sem þær ná ekki í sigur.

Atkvæðamest fyrir heimakonur í leik dagsins var Daniela Wallen Morillo. Á 36 mínútum spiluðum skilaði hún 34 stigum, 19 fráköstum og 4 stoðsendingum. Fyrir Skallagrím var Keira Robinson atkvæðamest með 21 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.

Liðin mætast aftur í deildinni komandi miðvikudag 24. mars, þá í Borgarnesi.

Tölfræði leiks