Hið hroðalega lánlausa botnlið Hauka fékk sjóðandi Þorlákshafnarbúa í heimsókn í Ólafssalinn góða í kvöld. Gestirnir sitja í öðru sæti deildarinnar enda hafa þeir spilað stórkostlega í flestum leikjum hingað til og í raun aðeins tveimur stigum frá því að vera 10-1. Það mátti því búast við ójöfnum leik í kvöld en sjáum hvað kúlan segir…

Spádómskúlan: Í Kúlunni góðu birtast ótal upphrópunarmerki dansandi um í alls kyns stellingum. Þá má greina háværa bresti og ískur frá kúlunni sem reynist vera í munnvikum Israels Martin og birtist hann nokkurn veginn brosandi inn á milli merkjanna. Óvænt úrslit munu því líta dagsins ljós, 96-90 sigur heimamanna!

Byrjunarlið:

Haukar: Hansel, Jackson, Pablo, Raggi, Brian

Þór Þ.: Styrmir, Drungilas, Larry, Lawson, Raggi

Gangur leiksins

Það var jákvæð ára yfir heimamönnum og ljóst að leikurinn hafði mikla þýðingu fyrir liðið. Loksins má segja að Haukarnir séu fullmannaðir og argentíski Ítalinn Pablo og Kaninn Jalen Jackson voru greinilega tilbúnir til að hjálpa liðinu. Það var bara allt annað að sjá Haukana og allir tilbúnir í slaginn. Heimamenn byrjuðu af krafti og komust í 11-5. Gestirnir héldu stóískri ró og Larry og Styrmir sáu til þess að botnliðið kæmist ekki upp með neina stæla. Haukar fengu framlag frá öllum áttum en samt voru gestirnir 28-29 yfir að fyrsta leikhluta loknum.

Bæði lið voru sjóðandi í fyrsta leikhluta en það var bara upphitun fyrir annan leikhluta! Þvílíka skotsýningu hefur undirritaður ALDREI séð! Larry, Bracey, Dabbi kóngur og Breki buðu upp á úrhellis þristaregn og staðan var 47-51 að því loknu. Jafnvel Hraðlestin fræga ætti bara að skammast sín. Sýningin hélt svo bara áfram út leikhlutann, hjá Haukum má næstum telja allt liðið upp, þeir skiptust bara á að setja hvern þristinn á fætur öðrum en 7 leikmenn settu a.m.k. einn í fyrri hálfleik! Larry og Styrmir voru áfram langatkvæðamestir gestanna en þó höfðu 5 Þórsarar sett þrist fyrir hálfleik. Staðan var 57-62 í hálfleik. Þórsarar settu 8 þrista í 15 skotum (53%) í fyrri hálfleik sem er allt í lagi! Haukar voru hins vegar með 13 í 20 skotum (65%) en voru samt undir. Ótrúlegt!

Enn héldu liðin áfram að skipast á þristum í þriðja leikhluta. Það var helst Styrmir sem gerðist svo lítillátur að skora aðeins 2 stig í einu og fór ítrekað illa með vörn Hauka og kom sínum mönnum í smá forystu 67-74 þegar góðar 6 mínútur voru eftir af þriðja. Þá tók Drungilas upp á því að láta henda sér út úr húsi eftir að hafa slegið í eða til Breka Gylfa! Undirritaður sá þarna möguleika opnast fyrir heimamenn en heyrði hins vegar ekki að Drungilas sagði við Lalla áður en hann fór í sturtu að þetta væri allt í lagi, Dabbi kóngur myndi redda þessu! Og það gerði hann, hann kom inn á og skoraði eins og óður maður! Gestirnir juku við forskotið og Styrmir átti stórfenglega troðslu í hraðaupphlaupi sem kom Þór í 73-88! 15 stiga munurinn hélst út leikhlutann, staðan 81-96 og enn einn leikhluti eftir!

Hilmar Pétursson hóf fjórða leikhluta með tveimur þristum og minnkaði muninn í 9 stig. Maður lét sig dreyma um spennandi leik til enda og fjarvera Drungilas var e.t.v. farin að segja til sín. En það reyndist vera mesta bull og Þórsarar þurftu að asnast til að ganga frá leiknum á næstu örfáu mínútum. Gestirnir svöruðu þristum Hilmars af krafti og var það einkum Larry nokkur Thomas sem sá um það mál. Staðan breyttist úr 87-96 í 87-104. Enn voru rúmar 7 mínútur eftir en heimamenn voru greinilega orðnir bensínlitlir á þessum tímapunkti og orðið ljóst að úrslit voru ráðin. Lokatölur urðu 100-116 í stórskemmtilegum leik!

Menn leiksins

Í hálfleik var Larry Thomas með  20-6-4 og Styrmir 18-3-2! Það er allt í lagi. Larry endaði með 36 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar, Styrmir 32 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Undirritaður fullyrðir að Larry sé nógu góður fyrir úrvalsdeild.

Haukar voru bara alveg ágætir í þessum leik, kannski þó einkum sóknarlega! Framlag kom úr mörgum áttum, Hansel, Jackson og Breki skoruðu mest en Pablo var einnig með ágætis tölfræði, 12 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.

Kjarninn

Þórsarar voru einfaldlega alveg frábærir í þessum leik! Haukar voru með 65% þriggja stiga nýtingu í 20 skotum en samt leiddu Þórsarar í hálfleik. Drungilas lauk leik fyrr en áætlað var en það virtist bara styrkja liðið! Eina sem væri hægt að setja út á er að Larry og Styrmir voru e.t.v. of áberandi en liðið hefur svo sem ekkert verið eitthvað tveggja manna lið í vetur, mikið heldur frábær og sterk liðsheild þar sem margir leggja í púkkið. Það verður gaman að fylgjast með þessu liði áfram…

Haukar eru komnir með Pablo og Jackson og þeir munu vafalaust styrkja liðið mikið. Þetta var fyrsti leikur þeirra og þeir verða sennilega talsvert betri eftir því sem þeir komast betur inn í hlutina hjá liðinu. Lalli sagði í viðtali eftir leik að það hafi bara verið mikil heppni að mæta Haukum í fyrsta leik þeirra með fullskipað lið! Haukarnir eru langt í frá fallnir og munu bíta frá sér í næstu leikjum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson