Þegar þetta er ritað hefur Þór Akureyri unnið fimm deildarleiki í röð í Domino´s-deild karla og situr í 6. sæti deildarinnar með 8 sigra og 8 tapleiki. Við rýndum aðeins nánar í málið og þá kom í ljós að þessir fimm sigrar hjá Þór undanfarið er jöfnun á félagsmeti hjá klúbbnum í efstu deild. Þór Akureyri er í annað sinn í sögunni á lengsta „rön-i“ félagsins í deildarkeppninni. Aðeins einu sinni áður hefur liðið unnið fimm deildarleiki í röð. Margir hafa verið til kallaðir fyrir norðan en er Bjarki Ármann Oddsson hinn útvaldi sem bætir metið?

Í núverandi deildarfyrirkomulagi með 22 umferðir og svo úrslitakeppni hefur Þór mest unnið 11 deildarleiki í deildarkeppninni en það gerðu þeir undir stjórn Benedikts Guðmundssonar 2017. Bæði Hrafn Kristjánsson (2008) og Ágúst heitinn Guðmundsson (2000) unnu 10 deildarleiki með Þór en Hrafn náði mest að sauma saman tveggja leikja rön árið 2008 og Ágúst setti metið með fimm leikja sigurgöngu í fimm síðustu umferðum deildarinnar árið 2000. Árið 2017 var lengsta sigurganga Þórs undir stjórn Benedikts þrír leikir í röð.

Ef við förum aftur til ársins 1995 þá sjáum við að í deildinni voru leiknir 32 deildarleikir og það árið var leikið í A og B riðlum. Þór lék þá undir stjórn Hrannars Hólms og hafnaði þá í 3. sæti í deildarkeppninni í A-riðli með 18 sigra og 14 tapleiki. Það árið var lengsta sigurganga Þórs í deildinni þrír sigrar í röð þó þeir hafi orðið 18 talsins í allri deildarkeppninni.

Í næstu umferð mætast Þór Akureyri og Tindastóll í Síkinu á Sauðárkróki. Staðan í viðureign þessara liða í sögulegu samhengi er 15-4 fyrir heimamenn í Tindastól sem hefur þannig tekist að verja heimavöllinn sinn nokkuð vel gegn kollegum sínum úr Eyjafirði.

Við núverandi fyrirkomulag í deildinni þá hefur Þór best klárað deildarkeppnina í 7. sæti en það var árið 2000 þegar Ágúst Guðmundsson var við stjórnartaumana.