KR-ingar heimsóttu Breiðholtið í kvöld er lokaumferð fyrri umferðar deildarinnar hófst. Íslandsmeistararnir hafa verið á fínu skriði undanfarið og hirtu stigin gegn deildarmeisturunum í síðasta leik. Heimamenn hafa hins vegar verið alveg skelfilegir. Þeir hafa marga góða leikmenn og klæðast eins búningum en það skapar ekki sjálfkrafa gott lið. Verður Borche búinn að bæta úr þessu fyrir kvöldið?

Spádómskúlan: Höfuð Borche birtist í kúlunni og það bullsýður á honum, reykjarmökkur stígur upp af höfði hans og gleraugnaspangirnar eru rauðglóandi. Svarið við spurningu inngangs er því NEI, vörnin verður vond eins og oft áður og Íslandsmeistararnir sigra, 94-102.

Byrjunarlið:

ÍR: Evan, Sæsi, Pryor, Sigvaldi, Zvonko

KR: Sabin, Nazione, Matti, Jakob, Brilli

Gangur leiksins

Limþreifarinn ljúfi byrjaði leikinn á því að gefa gestunum 3 stig með slakri vörn og villu gegn Brandon. Hann svaraði því með þremur sóknarfráköstum og villu góðri í næstu sókn og stemmarinn í húsinu strax geggjaður! Það var ekki annað að sjá en að vörnin hafi skánað hjá heimamönnum í landsleikjahléinu og komust þeir í 8-3. Darri henti þá í leikhlé og eftir það var jafnt á öllum tölum. Brandon og Zvonko voru mest áberandi sóknarlega hjá liðunum en það var Jakob sem kom gestunum 23-25 yfir rétt fyrir lok fyrsta leikhluta.

Leikurinn var áfram í jafnvægi  fram eftir öðrum leikhluta og liðin skiptust á að ná forystunni. Sabin hóf stigasöfnun sína í leikhlutanum og Matti stýrði KR-ingum frábærlega. Fyrir heimamenn var Zvonko að gera vel á köflum, troða í hraðaupphlaupum og Everage og Danero komu með fullt af stigum af bekknum. Þegar um 3 mínútur voru eftir var staðan 39-42 en þá fór gersamlega allt í hundana hjá ÍR. Zvonko fékk aðra sóknarvillu dæmda á sig og sína þriðju í heildina og fór á bekkinn. Hvort fjarvera Zvonko hafi skipt öllu eða ekki skal ósagt látið en gestirnir tóku á mikinn sprett, sundurspiluðu ÍR-ingana og komust í 39-49 forystu. Heimamenn fóru svolítið í einn-á-alla sóknarleik sem sést hefur of mikið hjá þeim en að einhverju leyti má tengja það við harðnandi vörn gestanna. Staðan var 41-49 í hálfleik.

Zvonko er ótrúlega undarleg týpa og allt virðist vera ýmist í ökkla eða eyra hjá honum. Hann byrjaði stórvel í þriðja leikhluta, tók sóknarfrákast, skoraði, stal bolta og fékk svo villu góða og aftur var leikurinn orðinn hnífjafn. Þá fékk hann klaufalega villu sem var hans fjórða og settist aftur á bekkinn! Þristasýning tók þá við í leiknum og eftir hana stóðu leikar 54-55. heimamenn áttu þá mjög góðan sprett, án Zvonko, og eftir þrist frá Everage leiddu ÍR-ingar 64-56, 5 mínútur eftir af þriðja og allt tryllt í Hellinum! Gestirnir svöruðu um hæl og héldu heimamönnum í 4 stigum það sem eftir var og voru komnir 68-70 yfir þegar leikhlutanum lauk.  

Enn og aftur sveiflaðist leikurinn til baka í byrjun fjórða, Evan setti sinn fyrsta þrist og Danero fylgdi í kjölfarið með annan slíkan og staðan 75-70. Jakob var hins vegar skömmu síðar búinn að koma sínum mönnum aftur yfir 75-76 með þristi. Í stöðunni 79-78 fékk Zvonko sína fimmtu villu og þriðju sóknarvillu og yfirgaf leikvöllinn. Undirritaður neitar að leggja mat á dóminn eða dómana sem og að dæma um hvort þetta hafi skipt höfuðmáli fyrir framhaldið. Það voru bræðurnir stórgóðu, Jakob og Matti, sem áttu eftir þetta stærstu skot leiksins og breyttu stöðunni í 81-84. Sabin bætti svo við tveimur stigum í hraðaupphlaupi eftir enn einn þristinn af hjá Evan. Þarna voru tvær mínútur eftir af leiknum og lítið sem ekkert mátti klikka hjá heimamönnum. Evan settu þrist í næstu sókn en heimamenn náðu ekki stoppi hinum megin og Sabin kláraði leikinn í framhaldinu á línunni. Lokatölur 84-91 og kúlan -10 með þetta á hreinu!

Menn leiksins

Matthías Orri var maður leiksins. Hann skoraði 19 stig, var með frábæra nýtingu og gaf 9 stoðsendingar. Kannski líður honum enn eins og á heimavelli í Hellinum. Brandon Nazione var frábær í fyrri hálfleik, endaði með 21 stig og tók 8 fráköst.

Hjá ÍR var Everage klárlega bestur, skoraði 21 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Zvonko setti líka 21 stig en undirritaður hefur enga hugmynd um hvort ráð sé að elska eða hata þennan leikmann…

Kjarninn

KR-ingar eru augljóslega á hraðri uppleið. Brandon hefur verið mjög góður eftir rólega byrjun en Zarko sýndi hins vegar strax nú í fyrsta leik að hann mun líkast til gera heilmikið gagn fyrir liðið. Frákastabaráttan var jöfn í þessum leik og varnarleikurinn var mjög góður á köflum. Undirritaður fullyrðir að ekkert lið hefur nokkurn einasta áhuga á að mæta KR í úrslitakeppninni.

ÍR-liðið er líka á uppleið, kannski ekki eins hraðri. Vörnin hjá liðinu var í það minnsta fín á köflum og einn á alla var minna áberandi en oft áður. Ef Evan hefði ekki verið skelfilegur í leiknum er aldrei að vita en það er kannski heimskulegt að tala á þessum nótum. Hann var samt -23 en næsti ÍR-ingur var aðeins -5! 

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, viðtöl / Kári Viðarsson

Myndir / Þorsteinn Eyþórsson