KR lagði ÍR í kvöld í 11. umferð Dominos deildar karla, 84-91. KR eftir leikinn í 2.-4. sæti deildarinnar ásamt Þór og Stjörnunni með 14 stig á meðan að ÍR er í 5.-8. sætinu með 10 stig líkt og Njarðvík, Grindavík og Tindastóll.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Matthías Orra Sigurðarson, leikmann KR, eftir leik í Hellinum.

Mig langar til að byrja á að tala um áhorfendur…Gettó-arnir héldu að vísu ekki með þér í þessum leik…

…neinei…

…en þetta var geðveikt skemmtilegt!?

Þetta var ógeðslega skemmtilegt! Þetta var bara eins og gott drama í Þjóðleikhúsinu – þetta var bara yndislegt og mikið um tilfinningar. Við byrjuðum flatir en náðum okkur svo á strik…lendum svo undir en komum til baka…þetta var bara alvöru rússíbani. En í gegnum leikinn fannst mér við vera öruggari í okkar aðgerðum.

Akkúrat. Það sjá það sennilega allir að það skiptir máli fyrir ykkur að vera með þessa tvo stóru Bosman-menn, það er meira jafnvægi í liðinu og þið að frákasta betur…

Jájá, vissulega. Zarko var frábær í kvöld, hann er nýkominn inn, þó hann hafi ekki skorað mikið þá var hann rosalega öflugur, hann er hávaxinn og ver körfuna vel og kannski betur en Brandon. Mér finnst  vera fínasta jafnvægi hjá okkur og það er jákvætt að vera með leikmann sem er nýkominn inn og koma hérna eftir tveggja vikna frí og spila á móti mjög erfiðu liði, vel þjálfuðu og kannski með bestu áhorfendurnar. En þetta var bara hörkusigur hjá okkur.

Já algerlega, KR-ingar ætla að verða Íslandsmeistarar og eru vanir því…og það er alveg ljóst að það er ekkert hægt að afskrifa ykkur…

Neinei, ef einhver hefur verið að gera það þá ætti hann að endurhugsa það eitthvað! Við höfum verið rosa þolinmóðir, erum hægt og rólega að verða betri, Ty er að koma betur inn í þetta og er að deila boltanum rosalega vel og þá spilum við betur, Zarko að koma inn í þetta sem er þvílíkur íþróttamaður…Brilli er að koma sterkari inn, Kobbi og Helgi góðir..og við erum bara með hörku lið. Ef einhverjir ætla að afskrifa okkur þá verði þeim bara að góðu með það.

Nákvæmlega, og þú sjálfur virðist vera í góðu standi…?

Jájá, mér líður vel, bara gaman að spila körfubolta og er kominn í lag.

Viðtal / Kári Viðarson