Það var boðið uppá hraðan og skemmtilegan hörkuleik þegar Grindvíkingar lögðu Þór Þorlákshöfn naumlega að velli í HS Orku Höllinni. Úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu mínútu leiksins og lokatölur urðu 105-101.

Hérna er meira um leikinn

Lárus Jónsson þjálfari Þórsara eftir leik:

“Eftir góða byrjun okkar fannst mér Grindvíkingar vera í bílstjórasætinu lungann úr leiknum. Þeir voru að komast alltof léttilega framhjá okkur og fengu að gera það sem þeir vildu í sóknarleiknum of oft.

Við vorum alltof seinir að klukka þá í varnarleiknum þegar á heildina er litið, og það skipti einfaldlega sköpum því þeir eru með frábærar skyttur sem má ekki skilja eftir galopna, og þá er voðinn vís.

Bæði lið voru að spila vel sóknarlega – gott flæði og mikið af stoðsendingum og þetta var fjörugur og opinn leikur. En við náðum einfaldlega ekki að stöðva Grindvíkingana nægilega oft. Svo hittu þeir úr stóru skotunum í lokin og unnu sanngjarnan sigur.

Við höldum áfram og ég get ekki kvartað undan frammistöðunni hjá mínum mönnum á þessari leiktíð, en maður vill auðvitað alltaf meira.”

Viðtal / Svanur Snorrason