Þór lagði ÍR í kvöld í Dominos deild karla, 98-105. Eftir leikinn er Þór í 2.-3. sæti deildarinnar með 22 stig líkt og Stjarnan á meðan að ÍR er í 8.-9. sætinu með 14 stig líkt og Tindastóll.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Lárus Jónsson, þjálfara Þórs, eftir leik í Hellinum.

Lárus Jónsson leit svo á að þessi sigur hafi verið mjög mikilvægur fyrir liðið:

Það hefur verið talað svolítið um að ÍR-liðið sé svolítið eins og tvö lið…og þið unnuð betra ÍR-liðið hér í kvöld!

Þessi sigur fyrir okkur er riiisastór! Við vorum einmitt að spila gegn hinu góða ÍR-liði sem allir spáðu í topp-4, jafnvel öðru sæti. Þetta var það lið! Bara hrós á ÍR-liðið!

Já, nákvæmlega! Þetta var það lið!

Alveg klárlega. Við vorum kannski sjálfum okkur verstir, þeir spiluðu aggresíva vörn og við vorum að flýta okkur aðeins of mikið og endum með 24 tapaða bolta fyrir vikið. Við vorum kannski aðeins þolinmóðari í fjórða leikhluta. Við fengum vissulega einn dag meira í hvíld en ÍR-liðið en það eru samt allir orðnir svolítið súrir í löppunum á þessum tíma.

Akkúrat. Þið lendið 16 stigum undir þegar 2 eru eftir af þriðja…þið meira að segja farnir að bulla svolítið í sókninni í kringum þann tímapunkt…ég hélt að þar væri leikurinn bara farinn frá ykkur…

Já, en svo náðum við að loka þriðja leikhluta helvíti vel, fengum þarna víti eftir körfu góða frá Halldóri sem klikkaði á vítinu (viljandi) og Callum tók sóknarfrákastið..það var svolítið sem koma skyldi í fjórða..

…já, hvað var það eiginlega??

Ég missti af því! Ég sá bara sniðskotið, ég var að fara að teikna eitthvað kerfi.

Ég hef bara aldrei séð annað eins…það var bara enginn ÍR-ingur mættur til að stíga út!

Já! En það sem gerðist var að við vorum einu frákasti undir í hálfleik en endum með að vinna 43-29 í fráköstum. Sóknarfráköstin í fjórða voru mjög dýrmæt…

…var það planað…?

Það er alltaf okkar plan að sækja sóknarfráköstin…

Já…og það byrjar einhvern veginn að ganga þarna seint í leiknum?

Kannski útaf því að við vorum bara svo óskipulagðir sóknarlega í fyrri hluta leiksins…

..það var bara ekkert færi á því?

Nei…og í hálfleik þá var ég skíthræddur því að við vorum með 56% þriggja stiga nýtingu í hálfleik en samt undir!

Já, ég hugsaði það einmitt líka!

Ég hugsaði með mér að þetta verður mjög erfiður leikur ef við ætlum ekki að spila neina vörn!

Já…vörnin var ekki góð…eða kannski leystu ÍR-ingar bara vörnina ykkar vel…? ÍR-ingarnir voru náttúrulega bara mjög góðir í þessum leik…?

Hrikalega góðir! Collin var að fara illa með okkur á póstinum og Zvonko var að skora auðveldlega á Adomas…við breyttum aðeins til og settum Callum á Zvonko…

Já alveg rétt…það gekk vel upp!

En bara credit á ÍR…verði liðum bara að góðu að koma og spila hérna!

Einmitt. Við erum ekki einu sinni búnir að minnast á að Styrmir var ekki með og er að jafna sig eftir að hafa snúið sig…

Já! Vonandi er hann bara klár í næsta leik, við viljum ekki taka neina óþarfa sénsa með það…

Akkúrat. Ég talaði við Ragga Braga áðan og við vorum sammála um það að það væri ekkert sérstaklega sniðugt að lenda 16-17 stigum undir seint í þriðja leik eftir leik…það er eitthvað sem þið gætuð bætt, maður vinnur ekki alltaf leiki þegar staðan er svona þegar fjórði leikhluti er að fara að byrja…

Neinei…við getum litið á það þannig að við gefumst þó aldrei upp…við getum alltaf komið okkur inn í leiki. Við eigum ekkert erfitt með að skora, 20 stiga munur er kannski ekkert svakalega mikið fyrir okkur. En ég kannski kalla bara til leikmanna minna hérna í þessu viðtali að spila bara tvo góða hálfleika næst!

Það væri kannski bara góð hugmynd!

Það væri bara fínt!

Svo mörg voru þau orð og vonandi lesa leikmenn Þórs viðtalið fyrir næsta leik!

Viðtal / Kári Viðarsson