KR vann sinn fjórða deildarleik í röð í kvöld og sjötta útileik í röð þegar liðið lagði Njarðvík í Njarðtaksgryfjunni í síðasta leik tólftu umferðar. Heimemenn í Njarðvík voru ívið betri í fyrri hálfleik en í þeim síðari kviknaði undir Brandon Nazione og KR-ingum sem héldu heim í Vesturbæinn með stigin. Sigur KR í kvöld var sá níundi í síðustu ellefu leikjum þeirra í Njarðvík. Lokatölur 77-81.

Gangur leiks
Heimemenn í Njarðvík voru frískari í upphafi leiks og komust í 8-2 með Hester fremstan í flokki. Gestirnir úr Vesturbænum voru ekki að finna fjölina fyrir utan og voru 1-10 í þristum eftir fyrsta leikhluta. Njarðvík leiddi 23-17 eftir fyrstu tíu mínúturnar þar sem Hester var með 9 stig og Sabin 7 fyrir KR. Í öðrum leikhluta var meiri broddur í aðgerðum KR sem hægðu á þristunum og sóttu meira að körfunni, gestirnir náðu að jafna leikinn en Njarðvík leiddi þó 38-37 í leikhléi þar sem Hester var með 13 og 6 fráköst en Sabin með 12 stig og 2 varin skot hjá KR. Brandon Nazione tók yfir leikinn í þriðja fyrir KR og sallaði niður 15 stigum sem leiddi til þess að KR var yfir 56-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Þetta upphlaup Nazione kveikti í liðsfélögum hans og KR settist þægilega við stýrið á leiknum án mikillar viðspyrnu frá Njarðvík. KR komst í 12 stiga forystu í fjórða leikhluta en Njarðvík minnkaði muninn í 72-79 þegar tvær og hálf mínúta lifðu leiks en lokatölur reyndust 77-81.

Nokkrir punktar

  • Jakob Örn Sigurðarson var stigalaus á þeim rúmu átta mínútum sem hann lék í fyrri hálfleik. Hann lauk leik með tvö stig en það voru kollegarnir Sabin og Nazione sem sáu um stigaskorið í kvöld.
  • Mario Matasovic fékk lengst af það verkefni að dekka Tyler Sabin og fórst það á köflum vel úr hendi en öllu jöfnu erum við þarna með kraftframherja að dekka skotbakvörð.
  • Brandon Nazione fór á kostum fyrir KR í þriðja leikhluta og skoraði 15 stig í leikhlutanum.
  • KR fann sigur þó þeir hafi aðeins skorað þrjá þrista í leiknum sem er það langminnsta hjá þessu skotliði á leiktíðinni! Fyrir leik kvöldsins hafði KR minnst skorað 8 þrista í leik, einmitt gegn Njarðvík í fyrri umferðinni.
  • Rodney Glasgow hefur átt betri daga, hann var með 8% skotnýtingu í leiknum, setti aðeins eitt af af 12 skotum sínum í kvöld
  • Sigur KR í kvöld var níundi deildarsigur þeirra í Gryfjunni í síðustu 11 heimsóknum!
  • Það er athyglisvert fyrir Njarðvíkinga að skoða töfluna því við botn deildarinnar eru þrjú lið sem hafa betur innbyrðis en Njarðvík sem hafa 8,6 og 4 stig en Njarðvík er eftir leik kvöldsins í 7. sætinu með 10 stig eins og Tindastóll.

Stigahæstu menn
Antonio Hester var með 25 stig og 13 fráköst hjá Njarðvik og Kyle Johnson bætti við 20 stigum og 10 fráköstum. Hjá KR var Tyler Sabin stigahæstur mðe 26 stig en Brandon Nazione bætti við 20 stigum og 7 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Í næstu umferð halda KR-ingar noður í land og mæta Tindastól en Njarðvík fer í Ólafssal og mætir Haukum.

Umfjöllun / Jón Björn

Myndir / SBS