Tindastóll tók á móti KR í Dominos deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Tindastóll hafði unnið fyrri leik liðanna í Vesturbænum fyrr í vetur en gengi liðanna hefur verið ólíkt síðan sá leikur fór fram, KR-ingar hafa styrkst töluvert en Stólar hafa gefið verulega eftir og eru nú að berjast fyrir sæti sínu í úrslitakeppninni.

Leikurinn fór fjörlega af stað, varnarleikur beggja liða ágætur og augljóst að heimamenn ætluðu sér að bæta upp fyrir arfaslaka frammistöðu í síðasta leik, tapi fyrir ÍR. Ty Sabin gaf þó tóninn snemma fyrir gestina með þristi og Jukic bætti 2 stigum við eftir sóknarfrákast. Heimamenn komust loks á blað eftir 2ja mínútna leik en Matti svaraði. Svo komu 2 þristar frá Tomsick og heimamenn komnir yfir 8-7. Gestirnir svöruðu fljótt og leiddu lengst af og náðu mest 8 stiga forystu 14-22. Stólar söxuðu það niður en áttu erfitt með að halda aga í sóknarleik sínum, staðan 23-27 fyrir gestina eftir fyrsta leikhluta.

Tveir snöggir þristar í upphafi annars leikhluta, frá Tomsick og Axel komu heimamönnum yfir 27-29 en Veigar Áki átti frábæra innkomu af bekknum fyrir KR, setti 7 stig í röð og staðan skyndilega orðin 31-39 fyrir gestina. Heimamenn náðu smá áhlaupi og minnkuðu muninn og fór Antanas Udras þar fremstur þrátt fyrir að vera ansi mislagðar hendur undir körfunni. Matthías Orri sá svo til þess að gestirnir leiddu með 6 stigum í hálfleik með góðri körfu í lokin, 43-49 fyrir gestina.

Heimamenn náðu að jafna og komast yfir í þriðja leikhluta sem var lengst af í járnum en nýr leikmaður Stóla, Flenard Whitfield, fór aðeins að láta til sín taka og Stólar leiddu 75-73 eftir leikhlutann. Björn Kristjáns og Ty Sabin voru öflugir fyrir gestina í upphafi lokaleikhlutans og gestirnir náðu að byggja upp forystu sem þeir voru aldrei líklegir til að láta af hendi þrátt fyrir öfluga baráttu heimamanna. Gestirnir keyrðu einföld kerfi í sókninni sem gengu yfirleitt vel og Stólar náðu ekki að stoppa. Þegar um 2 og hálf mínúta lifði leiks setti Ty Sabin þrist og látbragð hans var augljóst, taldi sig hafa tryggt sigurinn. Sem var rétt þrátt fyrir að 2 snöggir þristar frá Tomsick hafi gefið Stólunum líflínu og þegar Jaka minnkaði muninn í 3 stig var enn mínúta eftir og allt gat gerst. KR sigldi sigrinum þó heim með öguðum leik og Brandon Nazione innsiglaði leikinn með and1 play þegar 25 sekúndur voru eftir og kom muninum í 6 stig. Lokatölur 99-104 fyrir KR.

Ty Sabin átti stórkostlegan leik fyrir gestina, endaði með 36 stig og 41 framlagspunkt og áttu heimamenn engin svör við honum. Matthías Orri stjórnaði leik gestanna með röggsemi og var næststigahæstur með 14 stig. Hjá heimamönnum var Tomsick stigahæstur með 27 stig og Flenard Whitfield leit ágætlega út í sínum fyrsta leik, skilaði 22 stigum og reif niður 16 fráköst en hann var nýsloppinn úr sóttkví eftir seinni skimun í morgun og á eflaust eftir að komast betur inn í leik Stólanna. Ljóst er að dagar Shawn Glover eru taldir hjá Tindastól og búist við að hann fari af landi brott í vikunni.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna