Keflavík lagði Þór í Þorlákshöfn í 13. umferð Dominos deildar karla, 88-94. Eftir leikinn er Keflavík sem áður í efsta sæti deildarinnar, með 22 stig, á meðan að Þór er í 2.-3. sætinu með 18 stig.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Keflavík sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Komust mest 11 stigum yfir á upphafsmínútunum. Heimamenn náðu þó að rétta sinn hlut áður en fyrsti leikhlutinn var á enda, 20-20. Undir lok fyrri hálfleiksins skiptast liðin svo á snöggum áhlaupum, en leikurinn frekar jafn. Staðan 41-40 Þór í vil þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiksins gera Keflvíkingar vel í að vera skrefinu á undan. Ljúka þriðja leikhlutanum með fimm stiga forskot, 66-71. Leikurinn var svo stál í stál í upphafi lokaleikhlutans. Rétt eftir hann miðjan síga Keflvíkingar þó aðeins frammúr og ná að lokum að vinna, skulum ekki segja þægilega, en nokkuð örugglega á lokamínútunum, 88-94.

Kjarninn

Leikur kvöldsins var barátta af bestu gerð á milli tveggja toppliða deildarinnar. Þórsarar komu inn í leikinn sjóðandi heitir, hafandi unnið fimm leiki í röð á meðan að Keflavík var enn tveimur stigum fyrir ofan þá í efsta sæti deildarinnar.

Munurinn á liðunum ekki mikill í leiknum. Kannski helst sá að í brak mínútum gátu Keflvíkingar treyst á gífurlega öflugt byrjunarlið sitt til þess að klára dæmið. Mikið hrós á Þórsara samt, sem sýndu það í kvöld að þeir eru án alls vafa eitt besta lið landsins um þessar mundir.

Tölfræðin lýgur ekki

Eins og kannski við var að búast voru Keflvíkingar betri í teignum á sóknarhelmingi vallarins. Þórsarar gerðu vel í að láta Dominykas Mikla hafa fyrir hlutunum, en fengu í staðinn frábæra leiki frá Deane Williams og Calvin Burks. Keflvíkingar setja 38 stig í teignum í leik kvöldsins á meðan að Þór setur aðeins 20 stig.

Atkvæðamestir

Fyrir heimamenn var Adomas Drungilas atkvæðamestur með 14 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá gestunum úr Keflavík var það Deane Williams sem dróg vagninn með 18 stigum og 19 fráköstum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi fimmtudag 11.mars. Keflavík tekur á móti Haukum og Þórsarar heimsækja Grindavík.

Tölfræði leiks