Keflavík mun hafna þjóðernistillögu höfuborgarfélaganna “Fyrst og fremst þurfa lið að horfa í sitt eigið starf”

Nú um helgina verður haldið ársþing KKÍ þar sem kosið verður um breytingu á reglu um erlenda leikmenn í efstu deildum karla og kvenna. Eru það höfuðborgarsvæðis-félögin Valur, Stjarnan, KR og Haukar sem leggja tillöguna fram.

Þjóðernistillaga höfuðborgarfélaganna yrði að hörðustu takmörkunum Norðurlandanna í leikmannamálum

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur sendi frá sér fyrr í dag fréttatilkynningu þar sem kynnt voru sjónarmið deildarinnar og álit á tillögunni. Tilynninguna er hægt að lesa í heild hér fyrir neðan, en í henni veltir deildin upp þeim áhyggjum sem hún hefur af tillögu höfuðborgarfélaganna.

Fréttatilkynning:

Stjórn KKDK hefur fundað vegna tillögu um að í úrvalsdeild karla og kvenna og 1. deild karla og kvenna skulu alltaf vera a.m.k. þrír leikmenn sem eru uppaldir hjá félögum innan KKÍ (homegrown) á leikvelli samtímis. Tillagan felur einnig í sér að hverju liði er aldrei heimilt að vera með fleiri en einn erlendan leikmann á leikvelli sem ekki er ríkisborgari lands innan EES-ríkis (ESB) og telst ekki sem Bosman-A leikmaður skv. lögum UTL hverju sinni. Regla þessi gildir fyrir lið sem eru á suðvesturhorn landsins, sé lið utan suðvesturshorns skulu alltaf vera a.m.k. tveir leikmenn sem eru uppaldir hjá félögum innan KKÍ.

Stjórn KKDK fagnar allri umræðu sem snýr að áframhaldandi þróun körfuknattleiksiðkunnar á Íslandi. Áður en ákvörðun um slíkt er tekin þá er hins vegar gríðarlega mikilvægt að hreyfingin sé sammála um hvert markmið slíkra breytinga eigi að vera og hverju eigi að ná fram við slíkar breytingar. Hér má nefna nokkur atriði til umhugsunnar:

  • Er markmiðið að auka spilatíma ungra leikmanna. Hér er um göfugt markmið að ræða en ekkert í þessum tillögum tryggir að slíkt gerist. Í áranna rás hafa ungir leikmenn fyrst og fremst þurft að eiga innistæðu fyrir sínum spilatíma. Aldrei hefur verið sjálfgefið að ungir leikmenn fái spilatíma í efstu deildum. Ekki hefur verið sýnt fram á að brottfall ungra leikmanna sé meira við núverandi fyrirkomulag.
  • Er markmiðið að auka spilatíma íslenskra leikmanna. Klárlega yrði niðurstaðan sú myndi þessi breytingartillaga ná í gegn en ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengi þess að svo sé á móti því að getustig viðkomandi leikmanna aukist.
  • Velta má vöngum yfir því hvort markmið með breytingum sem þessi ættu almennt að vera þau að koma íslenskum leikmönnum á hærra getustig sem og koma íslenska landsliðinu á hærra getustig. Ljóst er að samkeppni íslenskra leikmanna við erlenda hágæða leikmenn hefur almenn leitt til hærra getustigs sem hefur skilað sér í góðum árangri íslenska landsliðsins og fleiri atvinnumönnum í sterkustu deildum Evrópu. Hins vegar skal ekki fullyrt um langtímaáhrif núverandi fyrirkomulags enda of snemmt að segja til um það. Hins vegar skal fullyrt að gæði íslensku deildanna hefur aldrei verið meira.
  • Er markmiðið að auka áhuga almennings á körfuknattleik og fjölga iðkendum í hreyfingunn. Stjórn KKDK hefur engar formlegar tölur til að styðjast við í þessum efnum en ljóst er að almennur áhugi fyrir körfuknattleik á Íslandi er gríðarlegur og hefur farið vaxandi. Þar kemur auðvitað margt til svo sem jákvæð fjölmiðlaumfjöllun. Ef horft er á fjölda skráðra liða á barna- og unglingastigum er ekki annað að sjá en fjöldi iðkenda innan hreyfingarinnar hafi vaxið töluvert undanfarin ár.

Gerðar hafa verið reglugerðarbreytingar á undanförnum árum sem hafa tryggt efnilegu körfuknattleiksfólki meiri spilatíma við sitt hæfi. Þar má t.d. nefna venslasamninga leikmanna á milli félaga. Halda þarf áfram að bæta og styrkja unglingastig körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi. Bæta þarf umgjörð leikja og gera þá að fýsilegum og spennandi kosti fyrir unga leikmenn. Sem dæmi mætti skylda félög til að taka niður tölfræði í slíkum leikjum sem og streyma leikjum. Einnig gætu aðrir tæknilegir hlutir haft í för með sér breytingu til batnaðar. Má þar nefna að vægi stigaskorunnar í innbyrðis viðureignum liða vegur þungt sem gerir það að verkum að lið spila oft á sínu besta liði allt til loka leiks þrátt fyrir öruggt forskot í leikjum.

KKDK telur að fyrst og fremst þurfi lið að horfa í sitt eigið starf og taka ákvörðun um fjölda erlendra leikmanna útfrá því. Sem dæmi var tekin ákvörðun hjá KKDK og þjálfurum kvennaliðs deildarinnar að spila eingöngu með einn erlendan leikmann tímabilið 2020/2021 enda hefur uppeldisstarf Keflavíkur skilað miklum fjölda stúlkna upp í meistaraflokk Keflavíkur, atvinnumensku og í bandaríska háskóla. Slíku er ekki fyrir að fara hjá karlaliðinu en þar hefur efniviðurinn hjá Keflavík verið minni undanfarin ár sem er vonandi tímabundið ástand. Keflavík jafnt sem önnur félög þurfa því að fyrst og fremst að huga að sínu uppeldisstarfi í þágu allra iðkenda á sama tíma og hugað er vel að þeim einstaklingum sem eru líklegt afreksfólk framtíðarinnar.

Niðurstaða KKDK á breytingartillögunni er eftirfarandi:

  1. Breytingin tryggir ekki spilatíma ungra uppaldra leikmanna í hverju liði.
  2. Erlendir leikmenn með íslenska kennitölu verð gríðarlega eftirsóttir á leikmannamarkaði og munu án efa verða yfirborgaðir. Oft á tíðum eru þessir leikmenn komnir yfir hátind síns ferils. 
  3. Ungir leikmenn sogast í höfuðborgina (Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð), jafnt frá Suðurnesjunum sem og öðrum landshlutum. Það sama má einnig segja um aðra reyndari leikmenn líka.
  4. Allra bestu íslensku leikmennirnir munu í auknum mæli færa sig til félaga þar sem fjármagnið er mest. Þetta mun skapa mikið ójafnræði milli liða.
  5. Fullyrt er að það sé ekkert í þessum tillögum sem geri það að verkum sjálfkrafa að kostnaður liða muni minnka. Launakostnaður annarra leikmanna mun einfaldlega aukast við það að fækka erlendum leikmönnum. Reynslan sýnir það.
  6. Jafnræðisreglur milli félaga eru ekki virtar eftir landshlutum. Það er hreyfingunni alls ekki til framdráttar til lengri tíma að hafa mismunandi reglur fyrir félög eftir staðsetningu og slíkt mun alltaf skapa kergju innan hreyfingarinnar til lengri tíma.

Í ljósi ofangreindra punkta hefur KKDK því tekið þá ákvörðun að hafna fyrrgreindri tillögu, eins og hún liggur fyrir, um breytingar á 15. gr. um erlenda leikmenn.

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.