Grannaglíman náði um það bil 20 mínútna flugi í Blue-höllinni í kvöld og síðan ekki söguna meir þegar Keflavík bauð Njarðvík upp á sögulega rassskellingu í deildarleik. Lokatölur reyndust 89-57 eða 32 stiga sigur sem er stærsti deildarsigur Keflavíkur gegn Njarðvík á sínum heimavelli. Fyrir leikinn í kvöld hafði Keflavík stærst unnið Njarðvík með 21 stigi í deildarleik á sínum heimavelli.

Keflvíkingar byrjuðu nokkuð betur og komust í 20-10 þar sem Hörður Axel Vilhjálmsson sallaði niður tveimur þristum með skömmu millibili. Heitt var undir Herði í fyrsta leikhluta þar sem hann var 4-5 í þristum og Keflavík leiddi 23-15 eftir fyrstu 10 mínúturnar. Hörður með 14 stig hjá heimamönnum en Hester 7 í liði Njarðvíkinga og talsvert meiri ákefð í Keflavík á upphafsmínútum leiksins.

Njarðvíkingum tókst að þétta varnarleikinn í upphafi annars leikhluta og minnkuðu muninn í 30-25. Keflvíkingar svöruðu þessari góðu byrjun gestanna og komust í 39-30. Staðan í hálfleik var svo 45-36 og stemmningin Keflavíkurmegin.

Hörður Axel Vilhjálmsson var með 15 stig og 5 stoðsendingar í hálfleik hjá Keflavík en Antonio Hester með 14 stig og 9 fráköst í liði Njarðvíkinga.

Keflvíkingar mættu klárir inn í síðari hálfleikinn, gestirnir í grænu voru hinsvegar víðsfjarri grýtandi boltanum í einhver svarthol og hikstandi á öllum gírum sóknarmegin. Heimamenn létu ekki segja sér þetta tvisvar og breyttu stöðunni í 59-38 eftir þrist frá Calvin þegar þriðji leikhluti var hálfnaður! Keflvíkingar linntu ekkert látum og hreinlega völtuðu yfir Njarðvík í þriðja, leikhlutinn fór 28-8 og leikurinn þar með löngu búinn.

Það þarf svo ekki að fjölyrða um fjórða leikhluta en allur síðari hálfleikurinn eins og hann lagði sig var sýning af hálfu Keflavíkur. Á meðan leik stóð bárust fregnir af því að gos gæti verið hafið á Reykjanesi, greinarhöfundur fær ekki betur séð en að gufuvaltari þeirra Keflavíkur hafi átt sinn þátt í því þegar hann pressaði niður erkifjendurna.

Hörður Axel Vilhjálmsson lokaði leik með myndarlega tvennu eða 22 stig og 10 stoðsendingar en þrír leikmenn Keflavíkur voru með tvennu í kvöld því Dean Williams gerði 14 stig og tók 13 fráköst og Milka bætti við 19 stigum og 12 fráköstum. Hjá Njarðvík var Hester með 20 stig og 15 fráköst en aðrir voru gersamlega týndir og frammistaða liðsins mikið áhyggjuefni fyrir Njarðvíkinga.

Gangur leiksins:
12-7, 20-10, 23-15
26-21, 39-30, 45-36
52-38, 63-38, 73-44
80-46, 87-53, 89-57

Tölfræði leiks
Myndasafn

Fyrir leik:
• Voru Keflvíkingar með 24 stig á toppi deildarinnar en Njarðvík með 10 stig í 10. sæti deildarinnar. Keflvíkingar höfðu einnig unnið sjö heimaleiki í röð en Njarðvík tapað síðustu fjórum leikjum á útivelli í röð.
• Í vikunni fyrir leik rifti Keflavík samningi sínum við Max Montana vegna agabrota.

Umfjöllun, myndir / Jón Björn Ólafsson