Það var sannarlega kátt í höllinni í kvöld þegar Þór tók á móti Grindavík í 13. Umferð Dominosdeildar karla í körfubolta í kvöld. Loksins eftir langt hlé fengu áhorfendur að mæta á leikinn og er óhætt að fullyrða að þeir  hafi tekið því fádæma vel og skemmtu sér og liðunum með þvílíku trompi að halda mætti að höllin hafi verið stútfull af fólki.

Áhorfendur studdu sitt lið með hrópum i gegnum grímurnar og trommuðu eins og engin væri morgundagurinn og útkoman taumlaus gleði frá fyrstu mínútu og heimamenn í Þór þökkuðu fyrir sig með sætum þriggja stiga sigri 101:98.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og komust í 4:0 og svo 6:3 eftir tæplega eina og hálfa mínútu en þá tóku gestirnir við sér með Dag Kár í broddi fylkingar sem tók til sinna ráða. Dagur setti upp skotsýningu í fyrsta leikhluta þegar hann setti niður fjóra þrista  og þá var Kazembe öflugur með 9 stig og Grindavík leiddi með 4 stigum þegar annar leikhlutinn hófst 26:30.

Gestirnir bættu svo við í forskotið snemma í öðrum leikhlutanum og eftir rúmlega þriggja mínútna leik var forskot þeirra orðið 9 stig 35:44 sem var það mesta í leiknum. En þá kom nýjasti liðsmaður Þórs til leiks, Grindvíkingurinn Ingvi Þórs sem fram að því var komin með tvö stig. Ingi tók sig til og bætti við ellefu stigum áður en fyrri hálfleikurinn var úti. Þór vann leikhlutann 27:21 og leiddi með einu stigi í hálfleik 53:52.

Í fyrri hálfleik var Ivan stigahæstur Þórs með 17 stig Ingvi Þór 13 og Andrius 11. Hjá gestunum var Dagur Kár með 16 stig og þeir Kazembe og Jonas með 12 stig hvor.

Fram í miðja þriðja leikhluta var leikurinn og áfram spennandi en þá kom ágætis sprettur hjá Þór sem náði 8 stiga forskoti þegar um 15 sekúndur voru eftir að leikhlutanum 80:72.  Gestirnir svöruðu þeim þremur stigum og munurinn því 5 stig þegar lokakaflinn hófst. Þór vann leikhlutann 27:21.

Þegar fjórði leikhlutinn hófst var Ivan komin með 27 stig og Ingvi Þór 19 en hjá Grindavík var Dagur Kár komin með 20 stig og Joonas 15 og fjórar villur.

Lokakaflinn var æsispennandi og bráð fjörugur og gestirnir bitu frá sér og átu upp forskotið og voru svo komnir með 4 stiga forskot 89:93 þegar um fjórar og hálf mínúta lifðu leiks. Þórsarar jafna 93:93 þegar tvær mínútur voru til leiksloka og Dagur Kár setti niður þrist 93:96. Þegar rétt innan við mínúta var til leiksloka kemst Þór yfir 97:96 með körfu frá Dedrick. Síðustu sóknir leiksins duttu með Þór sem fagnaði þriggja stiga sigri 101:98 og jafnaði þar með Val og Hött að stigum en öll eru með 8 stig.

Í liði Þórs bar Ivan af, kappinn setti niður 36 stig og var með 15 fráköst. Næstur kom Ingvi Þór með 19 stig 4 fráköst og 4 stoðsendingar.  Þá átti Guy sinn besta leik fyrir Þór hann skoraði 13 stig 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Aðrir Andrius 15/7/2, Dedrick 15/1/7, Srdan 3/2/3. Að auki spiluðu þeir Hlynur Freyr og Ragnar Ágústsson en þeir náðu ekki að skora í kvöld.

Hjá gestunum var Dagur Kár frábær hann skoraði 24 stig var með 3 fráköst og 4 stoðsendingar. Joonas Jarvelainen 19/3/1, Marshall Lance 18/3/5, Amenhotep Kazembe 14/9/3, Ólafur Ólafsson 11/7/1,Kristinn Páls 5/5/3, Björgvin Hafþór 5/0/2, Kristófer Breki 2/1/1

Tölfræði leiks

Myndasafn

Framundan eru tveir erfiðir útileikir hjá Þór, á föstudagskvöld sækir liðið Stjörnuna heim og svo á sunnudag verður haldið í Hafnarfjörðinn og Haukar heimsóttir.

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh