Heil umferð fór fram í Dominos deild kvenna í kvöld. Leikið var í 14. umferð og má segja að línur séu farnar að skýrast. Þrátt fyrir það var þó nokkuð um óvænt úrslit í kvöld. Í Smáranum mættu Valskonur heimakonum í Breiðablik.

Gangur leiksins

Flestir muna að Breiðablik vann Val í fyrstu umferð Dominos deildarinnar í vetur. Þá var sigurinn þó dæmdur Vals eftir að Breiðablik lék leikmanni sem átti að vera í leikbanni.

Það var snemma ljóst að Breiðablik átti harma að hefna og vildi leiðrétta það tap á töflunni. Þó munurinn hafi aldrei verið mikill á liðunum var það auðsjáanlegt að Breiðablik var mun ákveðnara liðið í byrjun. Valsarar urðu þó snemma fyrir áfallli þegar Guðbjörg Sverrisdóttir fékk höfuðhögg eftir rúmlega tveggja mínútna leik. Hún lék ekki meir í kvöld en Valur lék einnig án Dagbjartar Daggar og Hildar Bjargar. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Blikar altaf skrefi á undan. Staðan í hálfleik var 39-33 fyrir heimakonum.

Breiðablik náði svo fimmtán stiga forystu í lok þriðja leikhluta og virtust vera að sigla heim öruggum sigri. Valsarar voru ekki alveg á því og náðu 9-0 áhlaupi um miðbik fjórða leikhluta. Upphófst æsispennandi lokamínútur þar sem liðunum gekk vægast sagt illa að skora. Að lokum var það Jessica Kay sem setti sigurkörfu Breiðabliks þegar 14 sekúndur voru eftir. Valsörum tókst ekki að jafna og Iva setti tvö víti í lokin til að tryggja sigurinn. Lokastaða 74-69 fyrir Breiðablik.

Atkvæðamestar

Jessica Kay Loera var frábær í dag og endaði með 20 stig, 13 stoðsendingar, 5 stolna bolta og 5 fráköst. Þá var Ísabella Ósk Sigurðardóttir illviðráðanleg undir teignum og endaði með 16 fráköst.

Í liði Vals var Helena Sverrisdóttir drjúgust með 11 stig og 18 fráköst. Þá átti hin unga Eydís Eva Þórisdóttir öflugan leik með 13 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Gaman að sjá hana stíga upp í fjarveru landsliðskvennana.

Hvað næst?

Sigur Breiðabliks færir þeim nær Skallagrím í 5. sæti deildarinnar. Liðinu hefur skort nokkuð stöðugleika í vetur en sýnt oft frábærar frammistöður. Næsti leikur liðsins er gegn Fjölni á sunnudag.

Valsarar sitja enn á toppi deildarinnar en Keflavík mistókst einnig að sækja sigur. Næsti leikur er nágrannaslagur gegn botnliði KR.

Tölfræði leiksins