Tindastóll tók á móti toppliði ÍR í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í dag.

Lið heimastúlkna hefur verið að bæta sig í undanförnum leikjum og mættu ákveðnar til leiks í Síkinu í dag, staðráðnar í að velgja toppliðinu undir uggum. Marín Lind og Inga voru þó fjarri góðu gamni og munar um minna fyrir heimastúlkur. Gestirnir byrjuðu leikinn betur og komust í 0-5 en heimastúlkur sóttu í sig veðrið, spiluðu hörkuvörn og voru yfirvegaðar í sókninni og komust yfir 7-6 eftir tæplega þriggja mínútna leik. Þá hafði Sólrún Sæmundsdóttir fengið dæmdar á sig 2 óíþróttamannslegar villur á 10 sekúndum og tók ekki frekari þátt í leiknum.

Eva Wium kom heimastúlkum í 14-8 forystu um miðjan leikhlutann með tveimur vítum og gestirnir voru ekki að hitta vel gegn sterkri vörn heimastúlkna. Linda Þórdís kom Tindastól í 18-11 með góðri körfu og það urðu lokatölur leikhlutans. Gestirnir byrjuðu af krafti í 2. leikhluta, hertu vörnina og settu 2 þrista og voru komnar yfir um miðjan leikhlutann 18-19. Árni tók leikhlé en gestirnir bættu bara í og komust fljótlega í 20-24. Tindastólstúlkur þéttu raðirnar og klóruðu sig aftur inn í leikinn með góðri baráttu og þegar flautað var til hálfleiks leiddi Tindastóll 27-25.

Þegar líða fór á seinni hálfleikinn fóru gestirnir að hitta betur og komust fljótlega yfir og leiddu 34-40 um miðjan leikhlutann. Þær bættu svo verulega í bæði vörn og sókn, náðu 12-2 kafla það sem eftir var af leikhlutanum og staðan 36-52 fyrir síðasta fjórðung. Heimastúlkur mættu í lokaleikhlutann með mikla baráttu en gæði gestanna sýndu sig og þær náðu muninum fljótlega í 20 stig og þann mun voru heimastúlkur aldrei að fara að brúa. Lokatölur 53-69 fyrir gestina.

Hjá Tindastól var Eva Wium Elíasdóttir langatkvæðamest, setti 23 stig og stjórnaði sóknarleik heimakvenna. Hittni liðanna var ekki til útflutnings, bæði lið með undir 30% skotnýtingu í heildina en gestirnir rústuðu frákastabaráttunni, tóku 61 frákast á móti 46 hjá heimastúlkum. Stigahæst gestanna var Margrét Blöndal með 17 stig og hún reif niður 14 fráköst að auki og endaði með 28 framlagspunkta, besti leikmaður vallarins.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna