Haukar lögðu sjóðandi heitt lið Keflavíkur með minnsta mun mögulegum

Haukar lögðu heimakonur í Keflavík í framlengdum leik í kvöld í Dominos deild kvenna, 74-75. Leikurinn sá fyrsti sem Keflavík tapar í vetur, en eftir hann eru þær í öðru sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að Haukar eru sæti neðar með 16 stig.

Gangur leiks

Leikurinn var í járnum í upphafi. Eftir fyrsta leikhluta leiða Haukar með einu stigi, 12-13. í öðrum leikhlutanum ná þær svo að byggja upp eilítið stærra forskot, eru 9 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 27-36.

Í upphafi seinni hálfleiksins gera Haukar svo vel í að halda í forystu sína. Eru þægilegum 7 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 41-48. Óhætt er að segja að Keflvíkingar hafi komið dýrvitlausar til leiks í fjórða leikhlutanum. Þar sem þær voru búnar að jafna og komast yfir á fyrstu þremur mínútum hlutans. Undir lokin var leikurinn svo æsispennandi. Fór svo að lokum að liðin skildu jöfn að lokum venjulegum leiktíma, 66-66 og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni skiptust liðin á körfum frá byrjun til enda. Um miðja framlenginguna misstu Haukar svo Söru Rún Hinriksdóttur útaf með fimm villur. Sem var alvarlegt fyrir þær, því hún hafði verið að öðrum leikmönnum ólöstuðum þeirra best í leiknum fram að því. Alveg í lokin var það sniðskot Evu Margrétar Kristjánsdóttur sem skildi liðin að. Þegar hún setur það eru þó 27 sekúndur eftir, en Keflavík mistakast nokkrar tilraunir til þess að jafna leikinn eða komast yfir eftir það. Lokaniðurstaðan 74-75 sigur Hauka.

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar skutu mun betur úr djúpinu í leik kvöldsins en heimakonur. Settu niður 7 af 27 skotum þaðan (25%) á móti aðeins 4 af 31 (12%) hjá Keflavík.

Kjarninn

Leikur kvöldsins var eiginlegt uppgjör tveggja af þremur toppliðum deildarinnar. Í raun hefði hann getað lent hvoru megin sem er. Sérstaklega sterkt var hjá Haukum að klára leikinn með Söru Rún á bekknum, en hún hafði verið þeirra besti leikmaður sóknarlega í leiknum.

Atkvæðamestar

Fyrir Keflavík var Daniela Morillo atkvæðamest með tröllatvennu 26 stig, 30 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá Haukum var það Sara Rún Hinriksdóttir sem dróg vagninn með 19 stigum og 7 fráköstum.

Hvað svo?

Keflavík á næst leik þann 6. mars heima gegn Breiðablik á meðan að Haukar leika næst þann 10. mars, einnig heima, gegn KR.

Tölfræði leiks

Myndasafn