Haukar lögðu Skallagrím í kvöld í Dominos deild kvenna, 73-69. Eftir leikinn eru Haukar í 3. sæti deildarinnar með 20 stig á meðan að Skallagrímur er í því 5. með 12 stig.

Gangur leiks

Heimakonur í Haukum voru öflugri á upphafsmínútunum. Skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum og með 7 stiga forskot fyrir þann annan, 22-15. Undir lok fyrri hálfleiksins gerir Skallagrímur vel í að koma til baka og standa leikar jafnir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-34.

Skallagrímskonur mæta svo vel gíraðar inn í seinni hálfleikinn. Ná góðu áhlaupi á fyrstu mínútum hans, sem Haukar svara þó. Munurinn aðeins eitt stig fyrir lokaleikhlutann, 53-54.

Um miðjan fjórða leikhlutann ná heimakonur aðeins að slíta sig frá gestunum. Setja sex stig í röð, öll úr agalegum töpuðum boltum Skallagríms. Pínulítið eins og vindurinn væri farinn úr gestunum á þessum tímapunkti. Saga leiksins hélt þó áfram og Skallagrímur setti sig í fínt tækifæri til þess að stela leiknum á lokamínútunum. Hreinlega, voru óheppnar og Haukar lönduðu sterkum 73-69 sigri.

Kjarninn

Það var mikið jafnræði með liðunum í leik kvöldsins. Í raun og verunni fékk maður það aldrei á tilfinninguna að annað hvort þeirra myndi vinna hann. Haukaliðið gerði vel í að klára þetta, en þær eru það sem af er tímabili í 3 unnum á móti 1 töpuðum í jöfnum leikjum, sem er næst besta hlutfall deildarinnar í þeim tölfræðiflokk.

Þessi leikur var mun mikilvægari fyrir Skallagrím. Sem eftir leikinn eru 6 stigum fyrir aftan nýliða Fjölnis í sæti í undanúrslitunum. Skallagrímsliðið sýndi það þó í kvöld að þær geta vel spilað við bestu lið landsins, hreinlega verða bara að fara að ná í stig.

Tölfræðin lýgur ekki

Jafnt var á flestum þáttum tölfræði liðanna í leiknum. Undir lokin voru fjórir tapaðir boltar Skallagríms þeim þó dýrkeyptir. Fengu körfur í andlitið af þeim öllum. Haukar töpuðu aðeins tveimur boltum í fjórða leikhlutanum, sem hvorugur varð að körfu hinumegin á vellinum.

Atkvæðamestar

Fyrir gestina úr Borgarnesi var Keira Robinson atkvæðamest með 30 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Fyrir heimakonur var það Alyesha Lovett sem dró vagninn með 22 stigum, 11 fráköstum og 7 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga næsta leik komandi laugardag 20. mars. Haukar fá Snæfell í heimsókn á meðan að Skallagrímur mætir heimakonum í Keflavík.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)