Grindavík lagði Val að velli með 97 stigum gegn 85 í leik sem var hin fínasta skemmtun.


Heimamenn úr Grindavík höfðu frumkvæðið allan leikinn og Valsmenn náðu aldrei að komast yfir í leiknum. Mestur varð munurinn sextán stig. Það var þó samt þannig að Valsmenn voru inni í leiknum alveg þangað til rúmar fjórar mínútur voru eftir; þeir minnkuðu muninn á skömmum tíma úr 80-68 í 81-77, en lokaspretturinn var Grindvíkinga. Sinisa Bilic fékk tvær tæknivilllur þegar tæpar fimm mínútur voru eftir og reyndist það Valsmönnum dýrt, enda var þjálfari Vals, Finnur Freyr Stefánsson, alveg brjálaður út í Bilic.


En í það heila voru Grindvíkingar sterkari en Valsmenn í þessum leik og sýndu oft hversu mikið spunnið er í þetta lið. Dagur Kár Jónsson sneri aftur á völlinn eftir mánaðar fjarveru vegna meiðsla og lék virkilega vel og sýndi hversu mikilvægur hann er Grindvíkingum. Ásamt Dag voru þeir Joonas Jarvelainen og Kristinn Pálsson bestu menn vallarins en þó var þessi sigur Grindvíkinga fyrst og síðast sigur liðsheildarinnar. Nýr leikmaður þeirra, Kazembe Abif, er stór og sterkur strákur og getur án vafa styrkt liðið ef hann kemst í góða æfingu, en það er bæði greinilegt að hann getur látið fyrir sér finna og jafn greinilegt að hann er ekki í góðu formi.


Hjá Val var það nýr leikmaður, Jordan Jamal Roland, sem vakti mikla athygli í fyrri hálfleik, en þessi snaggaralegi bakvörður hélt Valsmönnum nánast á floti í fyrri hálfleik með tuttugu og tveimur stigum – hitti nánast úr hverju skoti og hér er á ferð athyglisverður leikmaður. Hann náði sér ekki eins vel á strik í síðari hálfleik, enda þá hans vandlega gætt.

Pavel Ermolinskij, Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox áttu ágæta spretti. Hjálmar Stefánsson lék sinn fyrsta leik með Val en náði aldrei að komast í takt við leikinn.


Góður sigur Grindvíkinga á Val því staðreynd, en bæði þessi lið eru með all svakalegan mannskap og ættu að vera meðal allra bestu liða landsins, en í þessum leik voru það einungis Grindvíkingar sem sýndu fram á það. 

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, viðtöl / Svanur Snorrason

Myndir / Benóný Þórhallsson