Það var boðið uppá hraðan og skemmtilegan hörkuleik þegar Grindvíkingar lögðu Þór Þorlákshöfn naumlega að velli í HS Orku Höllinni. Úrslitin réðust ekki fyrr en á síðustu mínútu leiksins og lokatölur urðu 105-101.

Strax frá upphafi var ljóst að hraðinn yrði mikill og stigaskorið hátt á kostnað varnanna.

Framan af voru það gestirnir sem voru á undan en heimamenn samt sem áður aldrei langt undan. Mest náðu Þórsarar átta stiga forystu í leiknum í byrjun en Grindvíkingar níu stiga forskoti. Sex sinnum skiptust liðin á að hafa forystuna og fjórum sinnum var jafnt.

Leikurinn var spennandi og skemmtilegur allan tímann en heimamenn sýndu styrk í lokin þegar gestirnir þjörmuðu að þeim og náðu að landa sigri.

Það var talsverður hiti í leikmönnum beggja liða sem gerði leikinn enn skemmtilegri; sigurviljinn og baráttan var til staðar hjá báðum liðum og Grindvíkingurinn Ólafur Ólafsson gaf sínum mönnum mikinn styrk undir lok leiksins þegar hann kastaði sér á eftir lausum bolta og endaði utan vallar – svona eiga menn að vera og svona eiga menn að gera.

Þegar upp var staðið munaði mikið um framlagið frá bekknum hjá Grindavík, en 27 stig komu þaðan á móti 16 frá bekk þeirra Þórsara. Þá var það styrkleikamerki hjá Grindvíkingum að sex leikmenn liðsins skoruðu tíu stig eða fleiri.

Dagur Kár Jónsson heldur áfram að brillera fyrir Grindavík og í kvöld skilaði hann 20 stigum, gaf 12 stoðsendingar og hirti fimm fráköst. Kristófer Breki Gylfason, Marshall Lance Nelson og Joonas Jarvelainen voru góðir. Þá er Kazembe Abif allur að koma til. Liðsheild Grindvíkinga var góð og það eru margir leikmenn í liðinu sem geta skorað, vopnabúrið er stórt.

Gestirnir úr Þorlákshöfn voru ekki langt frá sigri og léku í heildina nokkuð vel. Callum Reese Lawson og Styrmir Snær Þrastarson voru bestu leikmenn liðsins. Miklu munaði um að Larry Thomas náði sér ekki á strik og hitti illa, setti til að mynda aðeins niður eina þriggja stiga körfu úr 19 tilraunum.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Umfjöllun, viðtöl / Svanur Snorrason