ÍR lagði Tindastól í kvöld í 12. umferð Dominos deildar karla, 91-69. Bæði lið um miðja deild eftir leik kvöldsins, ÍR með 12 stig, 6 sigra og 6 töp á meðan að Tindastóll er neðar, enn með 10 stig, nú 5 sigra og 7 töp.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í ÍR sem byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Leiddu með 14 stigum eftir fyrsta leikhluta, 31-17. Undir lok fyrri hálfleiksins gera þeir svo vel í að verjast áhlaupi Tindastóls að forystunni, eru enn 8 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-37

Í upphafi seinni hálfleiksins settu heimamenn í ÍR svo fótinn aftur á bensíngjöfina. Vinna þriðja leikhlutann með 13 stigum og eru því með þægilega 21 stigs forystu fyrir lokaleikhlutann, 75-54. Í þeim fjórða gerðu ÍR-ingar svo endanlega út um leikinn. Niðurstaðan 22 stiga sigur ír, 91-69.

Kjarninn

Bæði lið þurftu virkilega á sigri að halda í kvöld. ÍR eilítið meira kannski í ljósi þess að hafa tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum. Spiluðu líka þannig, eins og þeir hefðu nákvæmlega engan áhuga á að tapa. Stóðu sig virkilega vel í að hamra á veikleikum Stólanna í leiknum. Sem nokkuð merkilegt verður að þykja er greinilega að skjóta boltanum.

Leikur Stólanna í kvöld sá annar sem þeir eiga á höfuðborgarsvæðinu á fáum dögum og það er spurning hvort ferðalögin fari illa í þá? Þó varla svo að það sé afsökun fyrir þessari afleitu frammistöðu sem liðið sýndi í kvöld.

Tölfræðin lýgur ekki

Stólarnir fengu ófá opin skot fyrir utan í leiknum sem þeir nýttu ekki. Í heildina skutu þeir 39 þriggja stiga skotum en settu aðeins 7 niður (17%) á meðan að ÍR tóku 25 og settu niður 12 (45%)

Atkvæðamestir

Fyrir heimamenn var Evan Christopher Singletary atkvæðamestur með 18 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá gestunum í Tindastól var það Jaka Brodnik sem dróg vagninn með 18 stigum og 8 fráköstum.

Hvað svo?

Næsti leikur Tindastóls er heima í Síkinu gegn KR komandi sunnudag 7. mars. ÍR á leik degi seinna, gegn Val í Origo Höllinni.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)