Valsmenn sluppu með tvö stig úr Njarðtaksgryfjunni í kvöld með öflugum varnarleik í fjórða leikhluta. Njarðvík var við stýrið lungann úr leiknum en uppskáru ekki fyrir erfiði sitt. Augljós batamerki á Njarðvíkurliðinu eftir yfirhalninguna í Keflavík en heimamenn léku í kvöld án fyrirliða síns sem var fjarverandi vegna meiðsla. Valsmenn að sama skapi gerðu afar vel eftir að hafa lent 61-51 undir að snúa leiknum sér í hag. Lokatölur 78-80 þar sem lokaskot Jóns Arnórs Sverrissonar fyrir sigrinum vildi ekki niður hjá Njarðvík.

Njarðvík leiddi 22-17 eftir fyrsta leikhluta þar sem Ólafur Helgi bauð upp á flautuþrist fyrir heimamenn. Maciej Baginski fann sig vel í upphafi og setti 8 stig en Roland og Cardoso voru báðir með 5 í liði Vals. Sprækar upphafsmínútur en Valsmenn með sjö tapaða bolta í fyrsta leikhluta og líkast til hefur Finnur Freyr eitthvað haft orð á þeim vanda milli leikhluta.

Jón Arnór Sverrisson átti góða rispu snemma í öðrum leikhluta og kom Njarðvík í 30-24 með tveimur þristum á stuttum tíma. Valsmenn með Cardoso í fínum gír jöfnuðu svo metin 32-32 þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Það voru þó Njarðvíkingar sem áttu lokasprettinn í fyrri og leiddu 41-38 í hálfleik.

Maciej Baginski var með 11 stig og 3 fráköst hjá Njarðvík í hálfleik en Cardoso var með 10 stig og 5 fráköst í liði Valsmanna.

Njarðvík fór betur af stað í síðari hálfleik og komust í 49-40 en það kom ekki ódýrt þar sem Maciej Baginski fékk sína fjórðu villu þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta. Varnarleikur heimamanna var þéttur lengst af í leikhlutanum en Valsmenn náðu að minnka muninn í 63-57 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Valsmenn voru ekki nema tvær mínútur að jafna leikinn 65-65 í upphafi fjórða leikhluta og voru ekki hættir þar heldur skelltu þeir í 2-14 opnun á leikhlutanum eftir að Roland setti erfiðan þrist fyrir Valsara með rúmar fimm mínútur eftir af leiknum. Pavel Ermolinski fór langt með leikinn þegar hann kom Val í 72-80 með þrist þegar 2.40 mín. lifðu leiks. Heimamenn voru þó ekki af baki dottnir og náði Kyle Johnson að minnka muninn í 78-80 þegar 24 sekúndur voru eftir. Hinn öflugi Cardoso fékk svo tvö víti fyrir Val þegar 8 sekúndur voru eftir en hann brenndi af báðum skotum og lokasóknin því í höndum Njarðvíkinga. Valsmenn með villu til að gefa brutu á Njarðvík þegar 5 sekúndur voru eftir. Einar Árni tók þá leikhlé fyrir heimamenn sem komu út á parket með fléttu þar sem Jón Arnór fékk lokaskotið sem var þristur og vildi hann ekki niður og sigurinn því Valsmanna.

Antonio Hester var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld með 17 stig og 12 fráköst en Jordan Roland var með 20 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar í liði Vals.

Gangur leiks:
22-17, 41-38, 63-57, 78-80.

Punktar:

  • Logi Gunnarsson lék ekki með Njarðvík í kvöld vegna nárameiðsla.
  • Síðasti sigur Vals í Njarðvík í deildarleik kom í október 2002 en þá hafði Valur 66-70 sigur.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Jón Björn Ólafsson