Það var stórleikur í 3. deild karla í dag þegar ósigruð lið Vestra-b og Þróttar frá Vogum mættust á Jakanum á Ísafirði.

Vestramenn hófu leikinn betur en gestirnir náðu undirtökunum fljótlega eftir fyrstu innáskiptingarnar um miðbik fyrsta leikhluta og leiddu í lok hans 13-17. Það stefndi svo allt í að gestirnir myndu stinga af í öðrum leikhluta sem þeir unnu 18-10 og fóru þeir með 23-35 forustu inn í hálfleikinn.

Skipstjóri Flaggskipsins, Stígur Berg Sophusson, þurfti því að grípa til hárþurrkunar í hálfleikshléinu en eins og flestir sem til hans þekkja vita þá kallar hann ekki allt ömmu sína, ekki einu sinni ömmu sína. Og eitthvað gagn gerði hálfleiksræðan því Vestramenn hysjuðu upp um sig buxurnar í þriðja leikhluta, unnu hann 23-14 og minnkuðu muninn í þrjú stig, 46-49, fyrir lokaleikhlutann.

Góður leikur heimamanna hélt áfram í lokaleikhlutanum og náðu þeir forustunni um miðbik leikhlutans, 57-56, með tveimur vítum. Þeir juku svo forustuna með nokkrum þriggja stiga skotum og unnu að lokum 72-66 sigur.

Stigahæstir hjá Vestra voru Friðrik Vignisson með 29 stig, Arnaldur Grímsson með 13 stig og Blessed Parilla með 12 stig.

Eftir leikinn er Flaggskipið jafnt Álftanes-b í 1-2. sæti með 6 stig en Þróttur er í 3. sæti með 4 stig.

Flaggskipið mætir næst Álftanes-b í Forsetahöllinni næstkomandi laugardag kl 16:00 en Þróttur mætir Haukum-b á sama tíma í Vogarbæjar höllinni í Vogum.