Heil umferð fór fram í Dominos deild kvenna í kvöld. Leikið var í 14. umferð og má segja að línur séu farnar að skýrast. Þrátt fyrir það var þó nokkuð um óvænt úrslit í kvöld. Í Dalhúsum tóku heimakonur í Fjölni á móti Snæfell.

Gangur leiksins.

Eftir jafnar upphafsmínútur þar sem liðin skiptust á að hafa forystu sigu Fjölniskonur framúr þegar leið á annan leikhluta. Fjölnir lauk öðrum leikhluta með 19-8 áhlaupi og gáfu tóninn. Staðan í hálfleik var 45-24 fyrir Fjölni.

Þessari forystu hélt Fjölnir allt þar til í byrjun fjórða leikhluta þegar liðið virtist slakna algjörlega. Snæfell náði 16-3 áhlapu og eins og hendi væri veifað var munurinn skyndilega orðinn aðeins átta stig og fjórar mínútur eftir. Fjölnir náði þó að lokum að standast áhlaupið og gáfu sigurinn ekki frá sér. Lokastaðan 79-71 fyrir Fjölni.

Atkvæðamestar

Ariel Hearn var að vanda algjörlega frábær. Hún endaði með 19 stig, 17 fráköst, 8 stoðsendingar og 8 stolna bolta. Daðrar við ótrúlega fjórfalda fernu og það ekki í fyrsta sinn á tímabilinu. Lina Pikciuté var einnig öflug með 18 stig og 14 fráköst. Til gamans má geta að Sigrún Björg Ólafsdóttir lék sinn fyrsta leik í gulu í kvöld en hún kemur til félagsins frá Bandaríkjunum.

Hjá Snæfell var Haiden Palmer með ævintýralega tröllatvennu, með 29 stig og 22 fráköst. Anna Soffía Lárusdóttir var einnig öflug með 19 stig og 9 fráköst.

Hvað næst?

Það er orðið ansi erfitt útlit fyrir Snæfell en þar sem KR vann í kvöld eru þessi tvö lið jöfn á botni deildarinnar. Framundan er æsileg fallbarátta en eitt lið fellur um deild. Næsti leikur liðsins er í Hafnarfirði þar sem liðið mætir heitasta liði landsins Haukum.

Fjölnir styrkti stöðu sína enn frekar í fjórða sætinu þar sem Skallagrímur tapaði á sama tíma. Næsti leikur liðsins er gegn Breiðablk næsta sunnudag.

Tölfræði leiksins