Nýliðar Hattar lögðu Grindavík í kvöld í 12. umferð Dominos deildar karla, 89-96. Höttur er eftir leikinn í 9.-10. sæti deildarinnar með 8 stig á meðan að Grindavík er í 5.-6. sætinu með 12 stig.

Staðan í deildinni

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, hafði þetta að segja eftir leik í HS Orku Höllinni.

“Þetta var lélegt hjá okkur, slæmt tap. Varnarleikurinn var arfaslakur hjá okkur og það er galið að fá á sig 96 stig á heimavelli, og það var það sem var fyrst og fremst að hjá okkur í þessum leik. Svo vorum við of mikið í því að þvinga boltanum inn í teig, töpuðum honum alltof oft og vorum að fá á okkur of mörg stig úr hraðaupphlaupum.

Staðan er þannig í dag í þessari deild að það geta allir unnið alla og við vissum vel fyrir leikinn að Höttur er með þrælgott lið – en spilamennska okkar var ekki boðleg, og eins og ég sagði áður, þá var það fyrst og fremst varnarleikurinn sem var alveg hræðilegur hjá okkur. Við vinnum ekki marga leiki ef við spilum svona lélega vörn.”

Viðtal / Svanur Snorrason