Breiðablik tók á móti Hamri í kvöld í mikilvægum leik fyrir bæði liðin. Blikar þurftu að vinna til að halda sér fyrir ofan Hamar. Hvergerðingar gátu komist upp fyrir Breiðablik með 3 stiga sigri og því til mikils að vinna.

Eftir æsispennandi leik þá skildi eitt hetjuskot á milli liðanna í lok leiks og Blikar náðu að tryggja sér toppsætið með sigri, 98-95.

Seinast þegar liðin mættust hafði bandarískur leikmaður Hamars aðeins æft með liðinu í rúma viku og Hamar hafði síðan þá líka bætt við sig ungum leikmanni KR, Þorvaldi Orra Árnasyni. Breiðablik hafði líka bætt við liðið sitt síðan þá, spænskum leikmanni að nafni Rubiera Rapaso Alejandro.

Gangur leiksins

Blikar virtust reiðubúnari í upphafi og höfðu fljótlega tekið forystuna í fyrsta leikhluta eftir að hafa skipst á forystunni við Hamar á fyrstu mínútunum. Mikið af stigum Breiðabliks voru að koma fyrir utan þriggja stiga línuna á meðan að Hamar hafði meiri fjölbreytni á sínum körfum. Til merkis um þristagleði Blika þá höfðu þrír leikmenn sett tvo þrista hver eftir aðeins einn leikhluta. Staðan var 29-18 fyrir Breiðablik eftir 10 mínútur.

Í öðrum leikhluta byrjuðu Hamarsmenn að spila aðeins betur á sama tíma og vörn Breiðabliks varð heldur döpur. Stemmingin var hjá gestunum og Þorvaldur Orri, ungur liðsmaður Hamars, varð skyndilega rjúkandi heitur! Hann skoraði 15 stig í öðrum fjórðungnum og kveikti í fósturliði sínu og áhangendum þeirra. Breiðablik missti forystuna í örskamma stund en gat tekið hana aftur rétt fyrir hálfleikshléið svo staðan var 52-50 þegar liðin héldu inn í búningsklefann.

Gestirnir úr Hveragerði opnuðu seinni hálfleikinn með látum og skoruðu 8 stig gegn aðeins 2 stigum hjá heimamönnum fyrstu tvær mínúturnar. Hamarsmenn héldu áfram að spila vel og buðu áhorfendum upp á nokkrar troðslur og leikgleðin leyndi sér ekki. Um miðbik þriðja leikhluta höfðu þeir mestu forystu sína í leiknum, 59-67, 8 stiga forskot. Þá kom eitthvað hökt á gestina og Blikar gátu svarað með sínu eigin áhlaupi. Það skilaði sér í að heimamenn höfðu forystuna í lok leikhlutans, 76-71.

Breiðablik byrjaði lokafjórðunginn sterkt en Hamar gat aðeins klórað sig til baka. Stemmingin var dálítið upp og niður í stúkunni en það var aldrei að sjá á gestunum að þeir ætluðu að gefast upp. Eftir því sem Hamar komst aftur í gírinn þá lifnaði yfir áhangendum þeirra á ný og skyndilega var staðan orðin jöfn og liðin hófu að skiptast á forystunni.

Þegar rúmlega 30 sekúndur voru eftir var staðan jöfn, 95-95 og Breiðablik sótti að körfu Hamars. Pálmi Geir Jónsson náði glæsilegri blokk og boltinn fór út af um það bil sem skotklukkan rann út. Dómararnir réðu sínum ráðum og töldu að Blikar ættu eina sekúndu á skotklukkunni til að ná skoti. Það reyndist mikilvæg ákvörðun því að Sam Prescott Jr. tók sig til og náði að grípa boltann, snúa sér við í loftinu og taka hetjuskot fyrir utan þriggja stiga línuna sem rataði beinustu leið niður!

Enn voru 20 sekúndur tæpar eftir af leiknum og Hamarsmenn fengu nokkur tækifæri til að jafna og senda leikinn í framlengingu en höfðu ekki erindi sem erfiði. Blikar unnu því leikinn 98-95.

Lykillinn

Lykillinn í kvöld var liðsheild Breiðabliks enda skiptust leikmenn á að eiga góðar innkomur. Að öðrum ólöstuðum hlýtur samt Sam Prescott Jr. að hafa vinninginn, enda setti hann lokaskotið sem að skildi á milli liðanna. Hann var með 15 stig, 9 stoðsendingar og sótti sex villur. Aðrir góðir voru Árni Elmar Hrafnsson með 16 stig og Snorri Vignisson með 15 stig og 8 fráköst.

Hjá Hamri var Jose Medina Aldana mikilvægastur með 17 stig, 7 fráköst og 15 stoðsendingar. Michael Philips var sömuleiðis góður með 24 stig og 12 fráköst.

Tölfræði lýgur ekki

Í leik sem þessum er kannski lítið sem skilur á milli í tölfræðinni. Það má hins vegar sjá á tölfræðinni að Breiðablik fékk meira framlag af bekknum sínum og að þeir hafi unnið á betri skotnýtingu (48% utan af velli gegn 40% hjá Hamri).

Hamarsmenn fengu miklu fleiri tækifæri til að skora og tóku 21 sóknarfráköst gegn aðeins 9 hjá Blikum. Það dugði hinsvegar ekki til og aðal vömmin hjá Hamri var þriggja stiga nýtingin (33% gegn 41% hjá Breiðablik) sem skýrist kannski af lélegu skotvali.

Kjarninn

Í jöfnum leik þá vann breidd Blikanna þennan leik. Byrjunarlið Hamars er mjög sterkt en þeir verða að geta hvílt sig meira en þeir gerðu í þessum leik. Þreytan gæti hafa verið munurinn á liðunum.

Þá er Breiðablik komið með 9 fingur á toppsætið og fara þar með beinustu leið upp í úrvalsdeild karla á næsta ári. Þeir þyrftu að tapa tveimur af síðustu fjórum leikjum sínum til að vera í vandræðum og það er satt að segja ólíklegt miðað við holninguna á liðinu.

Hamar verður þá að fara að einbeita sér að næstu leikjum og byrja hugsa út í úrslitakeppnina. Þeir eiga enn góða von með að fara upp í Dominos deildina, þeir þurfa bara að hafa meira fyrir því núna.