Keflavík lagði heimamenn í Grindavík í lokaleik 16. umferðar Dominos deildar karla, 115-82. Eftir leikinn er Keflavík sem áður í efsta sæti deildarinnar með 28 stig á meðan að Grindavík er í 5.-7. sætinu með 16 stig líkt og Valur og Þór Akureyri.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Björgvin Hafþór Ríkharðsson, leikmann Grindavíkur, eftir leik í HS Orku Höllinni.

Björgvin Hafþór var einn fárra leikmanna Grindavíkur sem var með lífsmarki í leiknum og tvær flottar troðslur hans voru eitt af því fáa sem gladdi heimamenn. Hann hafði þetta að segja í leikslok:

“Þetta var mjög skrýtinn leikur. Fyrir leikinn þá leið mér eins og við hefðum undirbúið okkur mjög vel fyrir að mæta Keflavík; við fórum vel yfir leik þeirra og það var góður andi í hópnum fyrir leikinn.

En þeir byrjuðu af miklum krafti og við einhverra hluta vegna ekki, og það sáu það allir að þeir vildu sigurinn en það var eins og við vildum frekar bara vera heima hjá okkur; þeir einfaldlega slátruðu okkur.

Við getum ekkert afsakað okkur þótt við hefðum verið að spila á móti líklega besta liði landsins í dag. Við verðum að gjöra svo vel að sýna hvað í okkur býr það sem eftir lifir af deildarkeppninni – við getum ekki boðið upp á svona slakan leik aftur. Við höfum enn tíma til að slípa okkar leik og stefnum á að ná fjórða sætinu þegar deildarkeppninni lýkur.”

Viðtal / Svanur Snorrason